Innlent

Bandarískur rasisti hótar að kæra starfsmann Barnaverndar Reykjavíkur

Lóa Pind Aldísardóttir skrifar
Bandarískur rasisti, Donald Pauly, hótar að kæra starfsmann Barnaverndar Reykjavíkur fyrir ærumeiðingar eftir að viðkomandi starfsmaður kvartaði undan vefsíðu, sem Pauly ber ábyrgð á. Á síðunni er birt kynþáttaníð um tvo munaðarlausa íslenska drengi.

Fjallað verður um rasisma og útlendingaótta í Brestaþætti kvöldsins. Íslensk rasistasíða hefur legið óáreitt á netinu í að minnsta kosti þrjú ár en þar er meðal annars birt kynþáttaníð um tvo íslenska drengi, dökka á hörund. Fósturmóðir drengjanna kærði síðuna í janúar 2012, lögregla yfirheyrði mann en ekki tókst að sanna að hann stæði á bak við síðuna. Lögregla getur ekki aðhafst frekar, því síðan er hýst í Bandaríkjunum.

En nú fyrir skömmu ákvað Barnavernd Reykjavíkur að senda kvörtun til hýsingarfyrirtækisins í Bandaríkjunum. Framkvæmdastýra Barnaverndar, sagði í samtali við Bresti að starfsmenn þar væru staðráðinir í að leita allra leiða til að fá síðuna tekna niður og draga þá til ábyrgðar sem birta slíkan hatursáróður gegn börnum.

Rætt verður við ábyrgðarmann síðunnar í Brestum í kvöld. Hann vill ekki nafngreina íslenska samverkamenn sína og þetta voru viðbrögðin þegar við spurðum hann út í kvörtun starfsmanns Barnaverndar.

Brestir eru á dagskrá Stöðvar 2 í kvöld og hefst þátturinn klukkan 20:20.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×