Erlent

Fyrstir til að lögleiða hjónabönd samkynhneigðra eftir þjóðaratkvæðagreiðslu

Atli Ísleifsson skrifar
Írska öldungadeildarþingkonan Katherine Zappone kyssir verðandi eiginkonu sína Ann Louise Gilligan fyrir utan Dyflinnarkastala fyrr í dag.
Írska öldungadeildarþingkonan Katherine Zappone kyssir verðandi eiginkonu sína Ann Louise Gilligan fyrir utan Dyflinnarkastala fyrr í dag. Vísir/AFP
Fyrstu niðurstöður benda til þess að meirihluti Íra hafi kosið með því að lögleiða hjónabönd samkynhneigðra. Þetta er í fyrsta sinn í heiminum sem slíkt mál er útkljáð í þjóðaratkvæðagreiðslu.

Rúmlega 3,2 milljónir manna voru á kjörskrá þar sem kosið var um hvort breyta ætti stjórnarskrá landsins til að heimila mætti hjónabönd samkynhneigðra.

Ráðherrar írsku ríkisstjórnarinnar segjast telja að málið verði samþykkt og margir frammámenn nei-hreyfingarinnar hafa þegar viðurkennt ósigur.

Kosið var í gær og hófst talning atkvæða í morgun. Í frétt BBC segir að svo virðist sem kjörsókn hafi verið „óvenjulega há“. Búist er við að endanleg úrslit liggi fyrir síðdegis í dag.

Verði úrslit á þá leið líkt og allt bendir til, verður Írland fyrsta ríkið til að lögleiða hjónaband samkynhneigðra í þjóðaratkvæðagreiðslu.

Heilbrigðismálaráðherrann Leo Varadkar, sem kom út úr skápnum fyrr á árinu, fyrstur írskra ráðherra, sagði kosningabaráttuna einna helst hafa líkst félagslegri byltingu í landinu, en landið þykir íhaldssamt þar sem ítök kaþólsku kirkjunnar hafa verið mikil í gegnum árin.

Fréttamaður írsku sjónvarpsstöðvarinnar RTE sagði að svo virtist sem um 75 prósent Dyflinnarbúa hafi kosið með lögleiðingu.

David Quinn, talsmaður hinnar kaþólsku Iona-stofnunar sem barðist gegn lögleiðingu, sagðist í samtali við fjölmiðla að þetta virtist augljóslega vera mjög tilkomumikill sigur já-manna.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×