Handbolti

Aron: Samningsmálin standa ágætlega

Ingvi Þór Sæmundsson í Laugardalshöll skrifar
vísir/eva björk
"Það er búinn að vera mikill stígandi í þessu upp á síðkastið og þessir fjórir leikir núna hafa verið mjög góðir og spilamennska liðsins verið mjög stöðug," sagði Aron Kristjánsson eftir 12 marka sigur, 34-22, á Svartfjallalandi í Laugardalshöllinni í kvöld.

Með sigrinum tryggði Ísland sér endanlega sæti á EM í Póllandi í byrjun næsta árs en þetta er níunda Evrópumótið í röð sem íslenska liðið kemst á.

"Það hefur verið góð einbeiting og mikill og góður andi í liðinu. Vörnin hefur verið góð og markvarslan sömuleiðis. Leikur liðsins hefur verið heilsteyptur og það er frábært að fara svona inn í sumarfríið, allir glaðir og fyrsta sætið í riðlinum tryggt."

Íslenska liðið átti misjafna leiki á HM í Katar í byrjun árs en síðan þá hefur verið allt annað að sjá til liðsins. Aron segir breytt hugarfar hafa breytt mestu þar um.

"Þetta snerist um hugarfarið. Það kom eitthvað þreytu- og vanmatsástand eftir EM í Danmörku 2014," sagði Aron en Ísland tapaði sem kunnugt er fyrir Bosníu fyrir ári í umspilsleikjum um sæti á HM í Katar.

"Þegar við mættum í Serbíu-verkefnið var hugarfarið allt annað. Allir voru klárir á því um hvað þetta snerist og við sóttum aftur í grunngildin, þau sem gera okkur sterka.

"Það er þessi fórnfýsi, vinnusemi og einbeiting. Það verða allir að gefa af sér og vera móttækilegir," sagði Aron en hvernig standa samningsmál hans gagnvart HSÍ?

"Þau standa ágætlega og nú þurfum við bara að fara að klára þetta," sagði Aron en gerir hann ráð fyrir að vera áfram við stjórnvölinn hjá landsliðinu?

"Ég vil ekkert segja um það en við sjáum bara til," sagði Aron að lokum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×