Handbolti

Aron: Algjör hugarfarsbreyting hjá liðinu

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Aron Kristjánsson vill vinna leikinn.
Aron Kristjánsson vill vinna leikinn. vísir/eva björk
Strákarnir okkar í íslenska handboltalandsliðinu mæta Svartfellingum í lokaleik liðsins í undankeppni EM 2016 í Laugardalshöll á morgun.

Farið hefur verið fram og til baka með hvort íslenska liðið sé búið að tryggja sér þátttöku eða ekki og hvað þarf að gerast í öðrum leikjum þannig leikurinn gegn Svartfellingum skipti ekki máli.

Sjá einnig:Óli Stef: Strákarnir vilja sópa upp eftir sig

„Það væri einfaldast að vinna á sunnudaginn og taka fyrsta sætið í riðlinum. Það er aðalatriðið,“ segir Aron Kristjánsson í samtali við Vísi.

„Það eru líka ágætis skilaboð að ná fyrsta sætinu. Það segir að við erum sterkir og skapar okkur betri stöðu fyrir EM í Póllandi.“

Stefnan er afskaplega einföld í Laugardalshöll á morgun segir Aron.

„Við eigum ekkert að hugsa um hvað getur orðið. Við erum að spila á heimavelli og eigum að vinna þennan leik. Við erum að spila vel og leggjum því upp með að sigra.“

„Nú þarf bara að einbeita sér einu sinni í viðbót fyrir sumarfrí og gera það almennilega á sunnudaginn.“

Síðustu þrír leikir landsliðsins hafa verið virkilega flottir og er allt annað að sjá til liðsins en á HM í Katar.

„Númer 1, 2 og 3 er það hugarfarið. Síðasta sumar var þreyta í liðinu gegn Bosníu. Þessi sumarverkefni eru hættuleg og ég tel okkur hafa lært af því verkefni,“ segir Aron.

„Eftir það voru neikvæðir straumar sem mynduðust í kringum Katar og umræðuna í kringum þátttökuna í því móti. Þar áttum við góða leiki en líka nokkra mjög slaka. En í síðasta verkefni gegn Serbíu var algjör hugarfarsbreyting,“ segir Aron Kristjánsson.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×