Fótbolti

Mótherjar KR hafa ekki tapað deildarleik síðan í apríl | Unnu í kvöld

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
KR mætir Cork City í Evrópudeildinni. Hér undirbúa KR-inga aukaspyrnu á móti FH í Pepsi-deildinni fyrr í sumar.
KR mætir Cork City í Evrópudeildinni. Hér undirbúa KR-inga aukaspyrnu á móti FH í Pepsi-deildinni fyrr í sumar. Vísir/Stefán
Írska félagið Cork City hélt sigurgöngu sinni áfram í kvöld í írsku úrvalsdeildinni og koma inn í leikinn á móti KR með sigur í fjórum síðustu leikjum sínum.

Cork City vann 2-0 útisigur á Derry City í kvöld en KR kemur í heimsókn til Cork í fyrri leik liðanna í forkeppni Evrópudeildarinnar í næstu viku.

Cork City er í öðru sæti írsku úrvalsdeildarinnar, þremur stigum á eftir toppliði  Dundalk sem vann 6-2 sigur í kvöld.

Cork City hefur ekki tapað deildarleik síðan að liðið mætti Dundalk 24. apríl. Síðan þá hefur liðið spilað átta deildarleiki, unnið sex og gert tvö jafntefli.

Framherjinn Karl Sheppard skoraði fyrra markið á 58. mínútu, hans sjöunda í fimmtán leikjum á leiktíðinni og     Billy Dennehy innsiglaði síðan sigurinn með marki úr víti þremur mínútum fyrir leikslok en það var líka hans sjöunda á leiktíðinni.

KR-ingar þurfa því að passa sig á þeim Karl Sheppard og Billy Dennehy í leiknum á fimmtudaginn í næstu viku.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×