Fótbolti

Bara 250 miðar eftir á leik KR og Rosenborg

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Stuðningsmenn Rosenborg eru klárir í slaginn fyrir kvöldið.
Stuðningsmenn Rosenborg eru klárir í slaginn fyrir kvöldið. Vísir/Kolbeinn Tumi
Hver fer að verða síðastur að næla sér í miða á KR-völlinn í kvöld. Það stefnir nefnilega í það að það verði uppselt á leik KR og norska félagsins Rosenborg í forkeppni Evrópudeildarinnar en liðin mætast í Frostaskjólinu í kvöld.

KR-ingar hafa selt 1300 miða í forsölu á leikinn og þar sem að það eru sérstakar reglur í Evrópuleikjum þá mega þeir aðeins selja 250 miða til viðbótar.

Eftirlitsdómari leiksins var mjög ánægður með grasið á KR-vellinum að sögn Jónasar Kristinssonar, framkvæmdastjóra KR og það er ljóst að aðstæðurnar á KR-vellinum í kvöld eru eins góðar og þær gerast hér á landi.

Stuðningsmenn Rosenborg voru mættir á völlinn einum og hálfum tíma fyrir leik en ákváðu síðan að fá sér göngutúr um Vesturbæinn þar sem þeir ganga nú um syngjandi söngva og berjandi trommur.

Blaðamaður Vísis hitti á stuðningsmennina á ferð um Vesturbæinn og þeir voru mjög bjartsýnir á gott gengi sinna manna í leiknum í kvöld. Þegar þeir hittu á einn stuðningsmann KR óskuðu þeir honum góðs gengis því að þeirra mati þyrfti hans lið svo sannarlega á því að halda.

Blaðamaður Vísis stýrði þessum hressu stuðningsmönnum í átt að Rauða Ljóninu þar sem þeir munu eflaust taka lokaupphitun sína fyrir leikinn í kvöld.

KR-ingar slógu írska liðið Cork City í síðustu umferð eftir sigur í framlengingu í seinni leik liðanna á KR-vellinum en nú fá KR-ingar fyrri leikinn á heimavelli sínum.

Leikur KR og Rosenborg hefst klukkan 19.15 og fyrir þá sem komast ekki í Vesturbæinn í kvöld en missa af miðum á leikinn þá verður hann sýndur beint á Stöð 2 Sport.

KR-völlurinn lítur vel út í kvöld.Vísir/Kolbeinn Tumi

Tengdar fréttir

Loksins kominn í lið sem vinnur fleiri leiki en það tapar

Hólmar Örn Eyjólfsson mætir KR með norska stórveldinu Rosenborg í annarri umferð forkeppni Evrópudeildarinnar í kvöld. Hólmar nýtur lífsins í Þrándheimi og hefur ekki liðið betur á vellinum í langan tíma.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×