Fótbolti

Rúnar Páll skoðaði ekkert leiki Celtic á móti KR í fyrra

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Úr leik KR og Celtic í fyrra.
Úr leik KR og Celtic í fyrra. Vísir/Daníel
Rúnar Páll Sigmundsson og lærisveinar hans hjá Stjörnunni eru staddir í Glasgow í Skotlandi þar sem þeir mæta skoska stórliðinu Celtic í forkeppni Meistaradeildarinnar á morgun.

Celtic er að mæta íslensku liði annað árið í röð en liðið sló KR út úr forkeppni Meistaradeildarinnar í fyrrasumar eftir 1-0 sigur á KR-vellinum og 4-0 sigri út í Skotlandi.

„Við skoðuðum ekkert leikina þeirra á móti KR í fyrra," sagði Rúnar Páll Sigmundsson, þjálfari Stjörnunnar, aðspurður um hversu mikið leikirnir KR og Celtic frá því í fyrra hjálpi Stjörnumönnum í leiknum á morgun.

„Þeir eru með breytt lið frá því í fyrra og við erum búnir að sjá þessa þrjá leiki sem Celtic-liðið er búið að spila á undirbúningstímabilinu," segi Rúnar Páll.

Celtic vann 2-0 sigur á hollenska liðinu FC Den Bosch, tapaði 5-3 á móti tékkneska liðinu Dukla Prag og vann loks 1-0 sigur á spænska liðinu Real Sociedad.

Gary Mackay-Steven, kantmaður Celtic-liðsins skoraði í öllum þremur leikjunum þar á meðal sigurmarkið á móti Sociedad. Mackay-Steven kom til liðsins frá Dundee United á miðju síðasta tímabili.

„Ég hef reynt að greina þá aðeins þannig og hefur gengið ágætlega með það. Svo verðum bara að koma í ljós hvernig þetta endar annað kvöld," sagði Rúnar Páll að lokum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×