Þingmenn úr fimm flokkum hafa lagt fram þingsályktunartillögu sem felur í sér að efla samstarf Íslands og Grænlands á ýmsum sviðum.
Össur Skarphéðinsson, þingmaður Samfylkingar og fyrrverandi utanríkisráðherra, er fyrsti flutningsmaður tillögunnar. Með henni lýsir Alþingi stuðningi við „söguleg skref sem vina- og nágrannaþjóð Íslendinga á Grænlandi hefur á síðustu áratugum tekið til aukinnar sjálfstjórnar og felur ríkisstjórninni að efla tengsl og samvinnu við Grænland.“
Í tillögunni segir að samstarf landanna skuli eflt meðal annars með gerð samkomulags sem tryggi fullt tollfrelsi varðandi sölu varnings og þjónustu, að örva tengsl milli yngstu kynslóða þjóðanna, að auka samstarf háskóla landanna, að koma á öflugu rannsóknasamstarfi, að bjóða til samstarfs á sviði sjávarútvegs, að taka frumkvæði að úttekt á mögulegri samvinnu á sviði læknis- og heilbrigðisþjónustu, að efla samstarf um ferðaþjónustu, að efla samstarf og ráðgjöf á sviði vatnsaflsverkefna á Grænlandi, að vinna að sameiginlegri framtíðarsýn um nýjar skipaleiðir á norðurslóðum, að efla samvinnu gegn loftslagsvá og taka upp formlegt samstarf á sviði umhverfisverndar og að efla á alla lund starfsemi Vestnorræna ráðsins.
Í greinargerð með tillögunni segir að Íslendingar hafi margar og ríkar ástæður til að styrkja sambandið við Grænland. „Þær eru bæði landfræðilegar og sögulegar, en ekki síst pólitískar og efnahagslegar.“
Þá segir að nú séu Íslendingar og Grænlendingar nánar vina- og samstarfsþjóðir með vaxandi tengsl á öllum sviðum og eigi ríka sameiginlega hagsmuni varðandi loftslagsbreytingar, vernd norðurslóða og nýtingu auðlinda. „Í kjölfar hlýnunar andrúmsloftsins munu breytingar á umhverfi og atvinnuháttum í norðri kalla á aukið samstarf þjóðanna á fjölmörgum sviðum.“
Manchester City
Chelsea