Handbolti

Alexander Petersson mögulega ekki með íslenska landsliðinu á EM

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Alexander Petersson
Alexander Petersson Vísir/Stefán
Alexander Petersson er aftur farinn að finna til í náranum og hann sjálfur er óviss um hvort að hann geti spilað með íslenska landsliðinu á Evrópumótinu í Póllandi í janúar.

Alexander er í viðtali hjá Sindra Sverrissyni í Morgunblaðinu í dag og þar segist hann vera kominn á upphafsreit þrátt fyrir að hafa farið í kviðslitsaðgerð í byrjun sumars.

„Ég fór í aðferð í byrjun júní vegna kviðslits - var þá búinn að vera að drepast í náranum. Ég æfði svo á fullu á undirbúningstímabilinu og það var allt í lagi þegar leiktíðin hófst," sagði Alexander við Sindra.

„En leikirnir hafa verið margir, alltaf tvisvar í viku, og smám saman fór þetta að vera eins og það var fyrir aðgerðina. Þetta tók sig ekkert upp allt í einu út af einhverju sem gerðist, heldur hefur þetta bara orðið verra og verra með tímanum," sagði Alexander í umræddu viðtali.

Alexander talar um að hann ætli jafnvel að fá að sleppa leikjum í Meistaradeildinni á næstunni og einbeita sér að þýsku deildinni. „Þetta eru alltof margir leikir," sagði Alexander.

En verður hann þá með á Evrópumótinu í Póllandi í byrjun næsta árs? „Ég veit það bara ekki. Ef ég verð heill heilsu þá verð ég með en ef ég er ekki heill þá verð ég ekki með. Svo einfalt er það," sagði Alexander í viðtalinu.

Alexander hefur þegar haft samband við landsliðsþjálfarann Aron Kristjánsson og látið hann vita að eins og staðan er núna þá verði hann ekki með íslenska landsliðinu á æfingamóti í Osló 5. til 8. nóvember næstkomandi.

Alexander Petersson var með á öllum stórmótum íslenska landsliðsins frá 2005 til 2012 en hefur síðan misst af tveimur af þremur síðustu stórmótum íslenska liðsins. Alexander lék með á HM í Katar fyrr á þessu ári sem var hans fyrsta stórmót í þrjú ár.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×