Handbolti

Patrekur má þjálfa lið Veszprém en ekki lið í Austurríki

Henry Birgir Gunnarsson skrifar
Patrekur Jóhannesson.
Patrekur Jóhannesson. Vísir/AFP
Ungverska stórliðið Veszprém er í leit að þjálfara þessa dagana en félagið lét þjálfara félagsins, Antonio Carlos Ortega, róa eftir að liðið náði aðeins jafntefli í fyrstu umferð Meistaradeildarinnar gegn Wisla Plock.

Við starfinu tók aðstoðarmaður hans, Xavi Sabate, og undir hans stjórn hefur liðið verið á mikilli siglingu enda liðið frábærlega mannað. Besta lið Evrópu að margra mati. Aron Pálmarsson er ein af stjörnum liðsins en hann kom til félagsins í sumar.

Lino Cervar, fyrrum landsliðsþjálfari Króatíu, var einn af fyrstu mönnunum til að vera orðaður við starfið eftirsótta en síðan fjölgaði nöfnunum. Patrekur Jóhannesson hefur til að mynda verið orðaður við starfið.

Sjá einnig:Veszprém vill fá Patrek

"Ég vil ekkert vera að tala um það núna," segir Patrekur sposkur er hann er spurður út í málið.

Patrekur er kominn í fullt starf hjá austurríska handknattleikssambandinu þar sem hann þjálfar karlalandslið þjóðarinnar.

"Það eru margir orðaðir við starfið og ég sá að ég var þar á meðal. Það er svo sem ekkert meira um það að segja núna," segir Patrekur en er eitthvað í hans samningi við Austurríkismenn sem útilokar þann möguleika að hann taki við Veszprém?

"Ég hef þjálfað bæði Hauka og Val samhliða starfinu hjá Austurríki þannig að það er ekkert sem meinar mér að þjálfa annað lið utan Austurríkis. Ég má aftur á móti ekki þjálfa neitt félag í Austurríki."

Íslenskir þjálfarar hafa heldur betur verið að gera það gott í alþjóðlegum handbolta á síðustu árum og Patrekur hefur náð mjög eftirtektarverðum árangri með lið Austurríkis þannig að það þarf ekki að koma á óvart að ungverska liðið sýni honum áhuga.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×