Handbolti

Aron um Ólaf Stefáns: Nú erum við að koma öxlinni á honum í gang

Henry Birgir Gunnarsson skrifar
Aron segir Ólaf vera kláran í slaginn.
Aron segir Ólaf vera kláran í slaginn. Vísir/Daníel
„Hann hefur litið vel út á æfingum og hefur ekki glatað neinu af leikskilningi sínum,“ segir Aron Kristjánsson, þjálfari Danmerkurmeistara Kolding, en félagið tilkynnti í gær að Ólafur Stefánsson muni spila með því gegn Zagreb í 16-liða úrslitum Meistaradeildarinnar.

Fyrri leikur liðanna fer fram í Zagreb um næstu helgi og síðari leikurinn er í Kaupmannahöfn viku síðar.

Ólafur byrjaði að æfa með félaginu í síðustu viku og gengi það vel myndi hann spila. Það er nú ljóst að hann mun gera það enda hefur hann litið vel út á æfingum.

„Hreyfingarnar eru að koma og hann var fljótur að komast inn í spilið hjá okkur. Nú erum við að koma öxlinni á honum í gang. Það er ekkert rosalega mikið dýnamít í öxlinni á honum núna en við erum að ná því upp. Svo þegar hann kemur í leik þá lætur hann frekar vaða. Annars er Óli í flottu formi og þetta lítur vel út. Hann hefur haft mjög gaman af þessu og er eins og barn að leika sér.“

Aron segir að ekki komi til greina að Ólafur beri leik liðsins uppi heldur mun hann leysa Svíann Kim Andersson af hólmi en hann er að spila þó svo hann sé ekki alveg heill heilsu.

„Það væri frábært ef hann gæti tekið tíu mínútur við og við. Hann er reynslumikill og getur komið inn með mörk og sendingar. Auðvitað ró og reynslu líka á erfiðum útivelli,“ segir Aron en hann gæti líka spilað með Ólaf og Andersson saman.

„Kim hefur spilað á miðjunni stundum í vetur og það gæti vel farið svo að ég prófi það og þá með Óla í skyttunni. Við þurfum að vera á lífi eftir leikinn í Zagreb og ég er bjartsýnn á að það takist enda erum við með reynslumikið lið.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×