Ferðamannaiðnaðurinn á Íslandi er orðinn stærsti gjaldeyrisskapandi atvinnuvegur landsins. Um 80 prósent erlendra ferðamanna segjast koma til Íslands vegna einstæðrar náttúru landsins. Þar trónir efst ósnortið hálendið. Hálendi Íslands er því eitt og sér orðið ein af mikilvægustu tekjuskapandi auðlindum landsins, ásamt fiskistofnum og náttúrulegum orkugjöfum. Það segir sig sjálft að háspennumöstur og þjóðvegir passa illa inn í þessa hálendismynd og myndu rýra þá auðlind sem hálendið er.
Hvað snertir virkjanir á hálendinu verðum við að vanda valið með tilliti til þeirra gríðarlegu hagsmuni sem eru í húfi. Möguleikarnir eru sem betur fer margir og fjölbreyttir og því ætti að vera hægt að komast að góðri niðurstöðu í þeim efnum án þess að því fylgi stöðugt römm pólitísk átök sem sundra þjóðinni. Slík átök eru sóun á tíma og orku sem annars gæti farið í skynsamlega umræðu.
Stjórnvöldum á hverjum tíma ber skylda til að setja þessi mál í forgang í samræmi við mikilvægi þeirra. Því miður höfum við alls ekki staðið okkur sem skyldi, þrátt fyrir að ríkisstjórnin hafi haft forgöngu um að verja 400 milljónum króna til þessara mála í fyrra.
Hvernig stendur á því að við horfum upp á vinsælustu ferðamannastaði drabbast smá saman niður vegna þess að uppbyggingu innviða og nauðsynlegu viðhaldi er ekki sinnt nógu vel? Auðvitað munu vinsældir Íslands sem ferðamannalands dvína hratt ef ekki verður tekið fast í taumana hér.
Ég bið menn um að hafa í huga að fjármagnið til þessara verkefna verður að koma einhvers staðar frá. Frá ferðamönnum beint og rukkað inn á hverjum stað, með einum ferðamannapassa sem allir greiða, gistináttagjaldi, komugjöldum ferðamanna eða beint af skattfé sem í sjálfu sér má réttlæta í ljósi hversu tekjusköpunin er mikil í greininni. Virkjanakostir, vegir, raflínur og uppbygging innviða á ferðamannastöðum; öll eru þessi mál hjá Alþingi einmitt nú og ég hvet okkur sem þar starfa til að rísa undir okkar ábyrgð. Við megum lítinn tíma missa.