Handbolti

Egill: Þetta er spennandi lið með spennandi þjálfara

Henry Birgir Gunnarsson skrifar
Hinn efnilegi Egill reynir fyrir sér í Danmörku.
Hinn efnilegi Egill reynir fyrir sér í Danmörku. Vísir/Vilhelm
„Ég er mjög ánægður með þetta. Þetta er alveg geðveikt,“ sagði nýjasti atvinnumaður Íslands í handknattleik, Egill Magnússon.

Hann samdi í gær við danska úrvalsdeildarfélagið Team Tvis Holstebro en hann kemur til félagsins frá Stjörnunni.

„Það má alveg segja að það sé draumur að rætast hjá mér. Þetta átti ekkert svo langan aðdraganda en þetta hefur verið í gangi í nokkrar vikur. Þeir sýndu mér strax mikinn áhuga og ég á móti. Þetta er spennandi lið með spennandi þjálfara.“

Hinn hávaxni Egill skoraði 137 mörk í 24 leikjum í vetur. Besti leikur þessarar 19 ára skyttu kom gegn Val í desember er hann skoraði ein 17 mörk. Hann er sannfærður um að hjá þessu félagi geti hann haldið áfram að bæta sig.

„Ég tel þetta vera rétt lið fyrir mig til þess að bæta mig sem best. Vonandi fæ ég mikinn spiltíma hérna. Ég er annar maður í skyttuna hjá þeim og fæ mínar mínútur en mun svo reyna að fjölga þeim eftir því sem líður á tímabilið. Ég vona að það verði pressa á mér að standa mig. Það er fínt að hafa pressu.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×