Fótbolti

Heimir: Jafntefli yrði gott veganesti fyrir leikinn í Kaplakrika

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Steve Lennon í Evrópuleik gegn Elfsborg.
Steve Lennon í Evrópuleik gegn Elfsborg. Vísir/Arnþór
FH hefur leik í 1. umferð forkeppni Evrópudeildarinnar í dag þegar Hafnfirðingar mæta finnska liðinu Seinäjoen Jalkapallokerho, eða SJK, á útivelli.

Þetta er tólfta árið í röð sem FH leikur í Evrópukeppni en Heimir Guðjónsson stýrir Fimleikafélaginu í 27. sinn í Evrópuleik í kvöld. Hann segir FH-inga eiga erfitt verkefni fyrir höndum.

„Þetta er gott fótboltalið sem varð í 2. sæti finnsku úrvalsdeildarinnar í fyrra og eru í 3. sætinu sem stendur. Þeir vilja halda boltanum innan liðsins og eru sókndjarfir, þannig að við þurfum að vera vel undirbúnir fyrir leikinn,“ sagði Heimir í samtali við Fréttablaðið í gær.

FH-ingar komu til Finnlands snemma á þriðjudagsmorgun og æfðu bæði í gær og fyrradag. Allir leikmenn liðsins eru klárir í slaginn að sögn Heimis, að frátöldum Jonathan Hendrickx og Sam Hewson sem eru meiddir.

Auk þess að vera góðir að halda boltanum innan liðsins spilar SJK sterkan varnarleik en liðið hefur aðeins fengið á sig 11 mörk í 15 leikjum í finnsku úrvalsdeildinni í ár.

Heimir segir að FH-ingar verði að þora að halda boltanum í leiknum: „Við þurfum að halda boltanum innan liðsins, við náum engum árangri ef við gerum það ekki. Við þurfum að sjálfsögðu líka að verjast vel, þannig það er eitt og annað sem við þurfum að vera með á hreinu.“

Heimir segir jafntefli vera fín úrslit fyrir FH í dag. „Jafntefli yrðu mjög góð úrslit og gott veganesti fyrir leikinn í Kaplakrika,“ sagði Heimir en seinni leikurinn fer fram eftir viku á heimavelli FH í Hafnarfirði.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×