Handbolti

Íslendingar þjálfa bestu lið Evrópu

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Guðmundur Guðmundsson og Þórir Hergeirsson.
Guðmundur Guðmundsson og Þórir Hergeirsson. Vísir/AFP
Evrópska handboltasambandið hefur gefið út nýjasta styrkleikalista sinn yfir bestu karla- og kvennalandsliðs álfunnar og þar kemur í ljós að það eru Íslendingar sem þjálfa bæði besta karlalið og besta kvennalið Evrópu. Listinn er settur saman út frá árangri landsliðanna á síðustu þremur Evrópumótum.

Danir geta verið stoltir af handboltalandsliðum sínum því bæði karla- og kvennalandslið Dana eru á meðal þriggja bestu.

Guðmundur Guðmundsson þjálfar danska karlalandsliðið og er á leiðinni með liðið á sitt fyrsta Evrópumót í Póllandi í byrjun næsta árs.

Danir eiga að baki eitt stórmót með Guðmund við stjórnvölinn en liðið endaði í 5. sæti á HM í Katar í upphafi ársins. Það sem er að skila Dönum í toppsætið er frábær árangur liðsins á síðustu Evrópumótum en liðið hefur unnið tvö gull og eitt silfur í síðustu fjórum Evrópukeppnum.

Íslenska karlalandsliðið er í 9. sæti nýjasta listans, einu sæti á undan Þjóðverjum þar sem Dagur Sigurðsson er landsliðsþjálfari.

Heims-, Evrópu og Ólympíumeistarar Frakka eru í fjórða sæti listans en þar hefur mikið að segja slakur árangur liðsins á EM í Serbíu 2012 þegar liðið náði aðeins 11. sæti. Á undan franska karlalandsliðinu á listanum eru, auk danska landsliðsins, landslið Spánverja og Króata.

Íslendingur þjálfar einnig besta kvennalandslið heims en Norðmenn skipa þar efsta sætið. Þórir Hergeirsson hefur þjálfað norska kvennalandsliðið frá 2009 og liðið vann sitt fjórða stórmót undir hans stjórn þegar norsku stelpurnar urðu Evrópumeistarar í Búdapest í desember síðastliðnum.

Það ógnar fátt þeim norsku á næstu árum enda hefur liðið náð í fimm gull og tvö silfur á síðustu sjö Evrópukeppnum kvennalandsliða.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×