Handbolti

Veit ekki á hvaða lyfjum heimildarmaður Morgunblaðsins er

Henry Birgir Gunnarsson skrifar
Aron og Alfreð er þeir voru báðir enn hjá Kiel.
Aron og Alfreð er þeir voru báðir enn hjá Kiel. vísir/getty
Alfreð Gíslason, þjálfari Kiel, er furðulostinn á fréttaflutningi Morgunblaðsins sem heldur því fram að Kiel sé til í greiða yfir 700 milljónir króna fyrir Aron Pálmarsson.

Samkvæmt frétt Morgunblaðsins í dag þá á Vesprém að hafa hafnað tilboði Kiel í Aron upp á 426 milljónir króna. Því hafi Kiel hækkað tilboðið í 711 milljónir.

Ef Aron yrði seldur á þessu verði yrði hann langdýrasti leikmaður heims. Nikola Karabatic var seldur frá Barcelona til PSG á 284 milljónir króna. Slíkar tölur hafa ekki verið í umræðunni í handboltaheiminum áður.

Alfreð líflegur á hliðarlínunni.vísir/getty
„Ég veit ekki á hvaða lyfjum heimildarmaður Morgunblaðsins er,“ segir Alfreð Gíslason er Vísir spurði hann út í málið í dag.

„Eina sem ég get sagt um málið er að við viljum fá Aron einhvern tímann til baka en við höfum ekki gert Veszprém neitt tilboð í hann. Við höfum ekki einu sinni rætt við Veszprém um Aron þannig að ég veit ekki hvaðan þetta er komið.“

Aron fór síðastliðið sumar frá Kiel til Veszprém. Meðal annars vegna þess að ungverska liðið gat boðið honum betri kjör.

„Ég hefði gaman af því að vita hver þessi heimildarmaður er. Hann hefur væntanlega verið á tólfta bjórglasi í stúkunni í Póllandi. En varðandi Aron þá er það ekkert leyndarmál að ég vildi aldrei missa hann og í öðru lagi vil ég fá hann til baka eins og ég segi. Þetta er ekkert í umræðunni enda er Veszprém væntanlega ekkert að fara að gefa hann frá sér,“ segir Alfreð.

En myndi félagið greiða 700 milljónir króna fyrir leikmann?

„Við myndum aldrei gera það. Þetta er algjört kjaftæði.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×