Handbolti

Ráku Dujshebaev og setja strangari reglur fyrir landsliðsþjálfara sína

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Það gekk lítið upp hjá Talant Dujshebaev á EM 2016.
Það gekk lítið upp hjá Talant Dujshebaev á EM 2016. Vísir/EPA
Talant Dujshebaev var í dag rekinn sem þjálfari ungverska landsliðsins í handbolta en undir hans stjórn enduðu Ungverjar í tólfta sæti á EM í handbolta í Póllandi.

Ungverska sambandið tilkynnti um ákvörðun sína í dag en ástæðan er slakur árangur liðsins á Evrópumótinu þar sem liðið vann fyrsta leik sinn á móti Svartfjallalandi en tapaði síðan síðustu fimm leikjum þar á meðal þeim síðasta 22-14 á móti Svíþjóð.

Talant Dujshebaev tók við liðinu eftir að Ungverjum mistókst að komast á HM í Katar og hann gerði umtalsverðar breytingar á landsliðinu frá síðustu verkefnum. Þetta gekk ekki upp hjá honum og liðið spilaði skelfilega í milliriðlinum.

Máté Kocsis, forseti ungverska sambandsins, tilkynnti um leið að nú þyrfti landsliðsþjálfarinn að vera búsettur í Ungverjalandi. Það má lesa um þetta hér.

Talant Dujshebaev býr í Póllandi en hann er einnig þjálfari pólska liðsins Vive Targi Kielce.

Dujshebaev var búinn að ráða sig hjá Vive Targi Kielce (janúar 2014) þegar hann tók við ungverska landsliðinu í október 2014.

Dujshebaev var með samning fram yfir HM í Frakklandi 2017 en hann segir sjálfur að ákvörðunin hafi verið sameiginleg.

Ungverska sambandið leitar enn eftirmanns Dujshebaev. Liðið komst ekki í forkeppni Ólympíuleikana en mætir Serbíu í umspilsleikjum um sæti á HM í Frakklandi í júní.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×