Handbolti

Guðmundur sló Patrek út | Þessar átta þjóðir komust á HM í kvöld

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Guðmundur Guðmundsson kom danska liðinu inn á HM í kvöld.
Guðmundur Guðmundsson kom danska liðinu inn á HM í kvöld. Vísir/Getty
Átta þjóðir tryggðu sér í kvöld sæti á HM í handbolta í Frakklandi en úrslitamótið fer fram í janúar á næsta ári.

Þjóðirnar átta sem tryggðu sér farseðlana í dag eru Danmörk, Svíþjóð, Rússland, Pólland, Ungverjaland, Hvíta-Rússland, Makedónía og Slóvenía

Aðeins eitt laust sæti er nú eftir í umspilinu en Ísland og Portúgal keppa um það í Portúgal annað kvöld.

Guðmundur Guðmundsson og lærisveinar hans í danska landsliðinu eru komnir á HM eftir þriggja marka sigur á Austurríki í Vín, 23-20. Danska landsliðið vann fyrri leikinn með átta marka mun og komst því örugglega inn á HM. Patreki Jóhannessyni tókst því ekki að koma austurríska landsliðinu á HM.

Það var mikil spenna í viðureign Tékklands og Makedóníu. Tékkar unnu fyrri leikinn með sex mörkum en það nægði ekki því Makedóníumenn tryggðu sér sæti á HM með sjö marka sigri á heimavelli sínum í dag, 34-27.

Rússar höfðu mikla yfirburði á móti Svartfellingum, unnu seinni leikinn með 10 mörk í Svartfjallalandi i dag, 29-19, og þar með samanlagt með sautján mörkum.

Svíar gerðu 27-27 jafntefli í Bosníu í dag en þeir þurftu ekki að hafa miklar áhyggjur eftir átta marka sigur í fyrri leiknum í Svíþjóð.

Hollendingar unnu eins marks sigur í seinni leiknum á móti Póllandi, 25-24, en Pólverjar fóru áfram á sex marka sigri í fyrri leiknum.

Ungverjar unnu báða leikina á móti Serbum, þann fyrri með einu marki í Serbíu og svo þann síðari með fimm mörkum, 30-25, í Ungverjalandi í dag.

Hvít-Rússar sluppu með skrekkinn á móti Lettum eftir 28-26 tap í Lettlandi í dag. Hvít-rússneska liðið vann fyrri leikinn 26-24 og fór áfram á fleiri mörkum skoruðum á útivelli.

Slóvenar höfðu fyrr í dag tryggt sér sæti á HM þrátt fyrir tveggja marka tap í Noregi. Slóvenska liðið vann fyrri leikinn með sex marka mun á heimavelli sínum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×