Fótbolti

„Íslenska liðið hefur unnið hjörtu allra í Danmörku“

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Eftir frækinn sigur Íslendinga á Englendingum á Evrópumótinu í Frakklandi breyttust plön Tinu Müller, íþróttafréttakonu hjá danska ríkisútvarpinu. Nú fylgir hún íslenska liðinu og er mætt til fjallabæjarins Annecy þar sem sífellt fjölgar fulltrúum erlendra fjölmiðla. Hún er fulltrúi Dana í fjölskrúðugum hópi fréttamanna.

„Ísland er orðið mjög vinsælt í Danmörku, það er eins og allir styðji Ísland núna fyrst að Danmörk komst ekki áfram. Eftir að Ísland gerði það svo gott, komst upp úr riðlinum með sigrinum á Austurríki, hefur hæpið bara aukist,“ segir Tina.

„Með sigrinum á Englandi er hæpið orðið stórt. Íslenska liðið hefur unnið hjörtu allra í Danmörku.“

Rosalegasta upplifun á fótboltaleik

Tina var á leiknum gegn Englandi í Nice og ber íslenskum stuðningsmönnum vel söguna

„Það var rosalegasta upplifun sem ég hef átt á fótboltaleikvangi, það var rosalegt. Þegar Rooney skoraði hugsaði maður að nú yrði jafnvel valtað yfir Ísland,“ segir Tina. Það breyttist aldeilis. Hún hélt niður í íslenska áhorfendaskarann og var í beinni útsendingu á DR heima í Danmörku.

„Ég fékk nóg af knúsum og kossum á kinnina,“ segir Tina og hrósar íslenskum stuðningsmönnum sem séu hlýir og yndislegir. Þá útskýrir hún að stuðningssöngur Íslands, sem borist hefur til Tólfunnar með viðkomu meðal annars í Garðabænum og Skotlandi, hafi slegið í gegn í Danmörku.

Aðspurð segir Tina marga Dani sjá svip með Íslandi 2016 og Danmörku 1992, þegar Danir fóru óvænt alla leið.

Mikil trú á Íslandi í Danmörku

„Maður er með svipaða tilfinningu. Þegar Ísland komst á EM var ekki nokkur í Danmörku sem trúði á Ísland. En nú finnur maður fyrir þessari tilfinningu að Ísland geti gert það sama. Trúin á Íslandi er rosalega mikil í Danmörku.“

Tina átti upphaflega að fara á leik Portúgals og Póllands en yfirmennirnir ákváðu að kraftar hennar væru betur nýttir í Annecy, að fylgjast með íslenska landsliðinu. Allt snúist um Ísland í íþróttafréttatímanum í Danmörku þessa dagana. Hún vonast til þess að fá að fylgja Íslandi eftir alla leið í úrslitaleikinn.

„Hver leikur sem íslenska landsliðið spilar er söguleikur. Ég krosslegg fingur að Ísland fari alla leið.“

Að neðan má sjá svipmyndir frá sigri Dana á Þjóðverjum í úrslitaleik EM 1992 í Svíþjóð.



Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×