Fótbolti

Benni Bongó: KSÍ svaraði kalli þjóðarinnar

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Benjamín Hallbjörnsson eða Benni Bongó, formaður Tólfunnar, segir að stuðningsmannahópurinn hafi valið sína tíu fulltrúa vel þegar ljóst varð að Knattspyrnusamband Íslands ætlaði að bjóða nokkrum úr þeirra hópi til Nice til að tryggja góðan stuðning í stúkunni.

„Það voru tíu Tólfur sem fengu að koma. Það urðu margir eftir heima. Við völdum þessa tíu einstaklinga vel, “ sagði Benjamín í viðtali við Vísi í beinni útsendingu frá Rivierunni í Nice.  

Ekki eru allir sáttir við að Knattspyrnusambandið hafi eytt pening í að fljúga tíu einstaklingum út á sinn kostnað en KSÍ er vitaskuld bara félögin í landinu. Benni segir þetta vel þekkt í öðrum löndum.

„Þetta er nefnilega fáfræði Íslendinga. Það er vel þekkt alls staðar í Evrópu að knattspyrnusambönd styrki opinbera stuðningsmannaklúbba með peningagjöfum og aðgangi að leikmönnum og þjálfurum,“ sagði Benjamín.

„Í Belgíu til dæmis hafa menn aðgang að þjálfaranum tvisvar sinnum í mánuði og leikmönnum einu sinni þar sem teknir eru upp Youtube-sketsar. Davor Suker, formaður króatíska knattspyrnu sambandsins, borgar formanni króatísku Tólfunnar 25 þúsund evrur á ári.“

Þrátt fyrir að ekki hafi allir verið sáttir við þetta útspil KSÍ var gríðarlegur fjöldi manns sem kallaði eftir því að KSÍ myndu hjálpa Tólfunni út á leikinn eftir að peningur hennar var uppurinn og hún þurfti að fara heim eftir sigurinn á Austurríki.

Benjamín kann vel að meta þetta ákall þjóðarinnar: „Þetta var bara pressa frá þjóðinni. Við segjum bara takk fyrir okkur. Ekki bara KSÍ.“

Ekki missa af neinu sem gerist á EM í Frakklandi. Vísir er með hóp fjölmiðlamanna á mótinu sem færa ykkur allar nýjustu fréttirnar af strákunum okkar. Fylgdu okkur á Facebook, Twitter og Snapchat (sport365).


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×