Fótbolti

Leikmenn Norwich hafa skorað meira en leikmenn Barcelona og Bayern á EM

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Robbie Brady og Wes Hoolahan.
Robbie Brady og Wes Hoolahan. Vísir/Getty
Nú eru aðeins sjö leiki eftir að Evrópumótinu í fótbolta í Frakklandi en átta liða úrslitin hefjast með leik Póllands og Portúgals í kvöld.

Það er athyglisvert að skoða hve mörg mörk leikmenn ákveðna félagsliða hafa skorað á Evrópumótinu til þessa. Sky Sports tók þessa tölfræði saman.

Stórlið eins og Real Madrid, Juventus og Atletico Madrid eru í efstu sætunum sem kemur ekki mikið á óvart. Það kemur hinsvegar mikið á óvart hvaða lið úr ensku úrvalsdeildinni er efst á þessum lista.

Leikmenn Norwich City hafa nefnilega skorað þrjú mörk á EM í Frakklandi sem skilar félaginu upp í 4. til 8. sæti á fyrrnefndum lista. Norwich er þar með fyrir ofan lið eins og Arsenal (2 mörk), Manchester United (2 mörk), Liverpool (1 mark) og Chelsea (1 mark).

Það er ekki bara að leikmenn Norwich hafi skilað félaginu fyrir ofan fyrrnefnd lið úr ensku deildinni þá hafa þeir einnig komið Norwich upp fyrir klúbba eins og Barcelona (2 mörk) og Bayern München (1 mark).

Mörk Norwich manna á EM skoruðu þeir Robbie Brady (2 mörk) og Wes Hoolahan en þeir leika báðir með írska landsliðinu.

Leikmenn ensku úrvalsdeildarinnar eru meira áberandi meðal efstu liða þegar kemur að stoðsendingum á EM. Leikmenn Arsenal, Chelsea og Manchester City hafa allir lagt upp fjögur mörk á mótinu.

Eden Hazard hjá Chelsea (þrjár stoðsendingar), Kevin De Bruyne hjá Manchester City (þrjár stoðsendingar) og Aaron Ramsey hjá Arsenal (tvær stoðsendingar) eiga mestan þátt í því.



Flest mörk leikmanna ákveðna félaga á EM 2016:

1. Real Madrid - 6 mörk

2. Juventus - 4 mörk

2. Atletico Madrid - 4 mörk

4. Internazionale - 3 mörk

4. Besiktas - 3 mörk

4. Fenerbahce - 3 mörk

4. Norwich City - 3 mörk

4. Bursaspor - 3 mörk

9. Arsenal - 2 mörk

9. Barcelona - 2 mörk

9. Dormund - 2 mörk

9. Everton - 2 mörk

9. Tottenham - 2 mörk

9. West Ham - 2 mörk

9. Genclerbirligi - 2 mörk

9. Swansea - 2 mörk

9. Hoffenheim - 2 mörk

9. Southampton - 2 mörk

Flestar stoðsendingar leikmanna ákveðna félaga á EM 2016:

1. Arsenal - 4 stoðsendingar

1. Chelsea  - 4 stoðsendingar

1. Manchester City - 4 stoðsendingar

4. Bayern München - 3 stoðsendingar

5. Juventus - 2 stoðsendingar

5. Internazionale - 2 stoðsendingar

5. Barcelona - 2 stoðsendingar

5. Dortmund - 2 stoðsendingar

5. Fiorentina - 2 stoðsendingar

5. Malmö FF - 2 stoðsendingar




Fleiri fréttir

Sjá meira


×