Innlent

Strákarnir í opinni rútu frá Skólavörðuholti

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Landsliðinu verður fagnað í miðborginni í dag.
Landsliðinu verður fagnað í miðborginni í dag. VÍSIR/EYÞÓR
Íslenska karlalandsliðið í knattspyrnu kemur heim til Íslands í dag, mánudaginn 4. júlí, eftir frækilegan árangur í Evrópukeppninni í knattspyrnu. Af því tilefni er boðið til fagnaðarfundar íslensku þjóðarinnar með landsliðshópnum í miðbæ Reykjavíkur.

Fram kemur í tilkynningu frá forsætisráðuneytinu að landsliðið muni aka í opinni rútu frá Skólavörðuholti um klukkan 19:00 í virðingarfylgd lögreglu, niður Skólavörðustíg og Bankastræti að Arnarhóli. Þar fer fram hátíðardagskrá og verður landsliðshópurinn hylltur fyrir frammistöðu sína.

Landsmenn eru hvattir til að taka þátt og fagna landsliðinu á leiðinni niður Skólavörðustíg og Bankastræti og fjölmenna á Arnarhól. Að ósk lögreglu er fólki bent á að nota almenningssamgöngur, leggja bílum sínum í bílastæðahús eða í hæfilegri fjarlægð frá hátíðarsvæðinu til að greiða fyrir umferð. 

Forsætisráðherra Íslands, Sigurður Ingi Jóhannsson, mun fyrir hönd íslensku þjóðarinnar ávarpa landsliðið á sviðinu við Arnarhól. Forseti Íslands, Ólafur Ragnar Grímsson, verður viðstaddur athöfnina. Fjölbreytt skemmtiatriði verða á Arnarhóli en meðal þeirra sem fram koma eru Friðrik Dór og Erna Hrönn sem leiðir fjöldasöng.

Skemmtidagskráin verður svo á sviðinu við Arnarhól frá klukkan 18:30.

Kort af götulokunum í miðbænum í kvöld vegna móttökunnar.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×