Fótbolti

Valsbanarnir og Blikabanarnir bruna áfram í Evrópukeppninni

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Lettarnir unnu Blika naumt en fóru örugglega áfram í kvöld.
Lettarnir unnu Blika naumt en fóru örugglega áfram í kvöld. Vísir/Eyþór
Liðin sem slógu íslensku liðin Val og Breiðablik út úr fyrstu umferð forkeppni Evrópudeildarinnar komust bæði áfram í þriðju umferðina í kvöld.

Lettarnir úr Jelgava unnu flottan 3-0 sigur á slóvakísku liði en danska liðið Bröndby þurfti vítakeppni til að slá út skoska liðið Hibernian.

Danirnir í Bröndby unnu Valsmenn samanlagt 10-1 í fyrstu umferðinni en sigurinn í kvöld var talsvert tæpari og þurfti 120 mínútur og tíu vítaspyrnur til að fá fram sigurvegara.

Bröndby hafði unnið Hibernian 1-0 í fyrri leiknum í Skotlandi en Skotarnir unnu 1-0 á Bröndby Stadium í kvöld. Því varð að framlengja leikinn og þar var ekkert skorað.

Úrslitin réðust því í vítakeppni. Skotarnir klikkuðu á fyrstu vítaspyrnu sinni og fengu á endanum ekki að taka fimmtu og síðustu spyrnu sína. Danirnir skoruðu nefnilega úr öllum fimm vítum sínum og tryggðu sér sæti í næstu umferð.

Bröndby mætir þýska liðinu Hertha BSC frá Berlín í þriðju umferðinni.

Jelgava sló Breiðablik út úr fyrstu umferðinni 5-4 samanlagt þar sem Blikar fóru illa að ráði sínu. Blikarnir virðast hafa verið mun erfiðari andstæðingur en Slovan Bratislava frá Slóvakíu.

Jelgava og Slovan Bratislava gerðu reyndar markalaust jafntefli í fyrri leiknum í Slóvakíu en Jelgava vann 3-0 sigur í seinni leiknum í kvöld.

Glebs Kluskins skoraði fyrsta markið úr vítspyrnu á 27. mínútu, Boriss Bogdaskins bætti við öðru marki á 48. mínútu og Olegs Malasenoks skoraði síðan síðasta markið á 85.mínútu.

Verðlaunin hjá Lettunum fyrir sigurinn í kvöld er að mæta Beitar Jerusalem frá Ísrael í þriðju umferð forkeppninnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×