Fótbolti

Rosenborg tapaði en komst samt áfram

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Hólmar Örn Eyjólfsson og félagar í Rosenborg eru komnir áfram.
Hólmar Örn Eyjólfsson og félagar í Rosenborg eru komnir áfram. Vísir/Getty
Norska liðið Rosenborg er komið áfram í þriðju umferð í forkeppni Meistaradeildarinnar í fótbolta eftir að liðið sló sænsku meistarana í Norrköping út í kvöld en þarna voru að mætast tvö Íslendingalið.

Rosenborg-liðið gat þó leyft sér að tapa seinni leiknum í kvöld því norska liðið vann 3-1 sigur í fyrri leiknum á sínum heimavelli. Rosenborg mætir APOEL frá Kýpur í næstu umferð.

Norrköping vann seinni leikinn 3-2 eftir að hafa unnið upp tveggja marka forskot Rosenborg með því að skora þrjú mörk á síðustu 33 mínútum leiksins.

Hólmar Örn Eyjólfsson var í byrjunarliði Rosenborg og lék allan leikinn en þeir Matthías Vilhjálmsson (67. mínúta) og Guðmundur Þórarinsson (83. mínúta) komu báðir inná sem varamenn.

Jón Guðni Fjóluson þurfti að yfirgefa völlinn í blálokin eftir að hafa fengið olnbogaskot frá Christian Gytkjær.

Rosenborg-liðið komst í 2-0 eftir 55 mínútur í kvöld og var þá í raun með fimm marka forskot því liðið var einnig með fleiri mörk á útivelli.

Norrköping þurfti því að skora fimm mörk sem var nánast ómögulegt verkefni á rúmu hálftíma.

Svíunum tókst þó að skora þrjú mörk tryggja sér sigur í leiknum en það dugði þó skammt og Evrópuævintýri liðsins er á enda í ár.

Christian Gytkjær kom Rosenborg í 1-0 á 36. mínútu með marki úr vítaspyrnu og Yann-Erik de Lanlay bætti síðan við öðru marki á 55. mínútu.

Sebastian Andersson minnkaði muninn í 2-1 á 57. mínútu og Christoffer Nyman var síðan búinn að jafna tveimur mínútum síðar. Sebastian Andersson skoraði síðan sigurmarkið á 77. mínútu en nær komust Norrköping liðsmenn ekki.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×