Í gær ritaði Höskuldur Þórhallsson, þingmaður flokksins í Norðausturkjördæmi, flokksmönnum bréf þar sem hann hugðist bjóða sig fram gegn Sigmundi sem oddviti kjördæmisins. Einnig hvatti hann Sigurð Inga Jóhannsson, forsætisráðherra, til að gefa kost á sér sem formaður flokksins.

Sigurður Ingi hefur hinsvegar áður sagt að hann muni ekki fara í formannsframboð gegn sitjandi formanni flokksins. Lilja Dögg Alfreðsdóttir, utanríkisráðherra, hefur þá verið gjarnan nefnd í samhengi við formannsframboð en hún, líkt og Sigurður Ingi, hefur sagt að hún muni ekki bjóða sig fram gegn Sigmundi.
Gunnar Bragi Sveinsson, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, er þá einn þeirra sem hefur lýst yfir stuðningi við Sigmund.
Eygló Harðardóttir, félags- og húsnæðismálaráðherra, útilokaði ekki framboð í samtali við Fréttablaðið á dögunum en hún hefur einnig verið orðuð við formannsframboð.

„Ég hef notið góðs stuðnings Framsóknarmanna frá því að ég tók við sem formaður,“ segir Sigmundur. „Það hefur hjálpað mér mikið í hinni pólitísku baráttu og ég vonast til þess að njóta áfram trausts og stuðnings baklandsins. Við þurfum á því að halda, við Framsóknarmenn, að vera í stöðu til að vinna að þessum risastóru málum sem við höfum verið að vinna að á undanförnum árum. Við höfum náð góðum árangri en enn eru ókláruð mál og stór skref eftir sem ég vona að við náum að vinna í sameiningu,“ segir hann.
Framsóknarflokkurinn hefur mælst með umtalsvert lægra fylgi í skoðanakönnunum upp á síðkastið miðað við það sem hann uppskar í Alþingiskosningum. Flokkurinn mældist með minnsta fylgi í sögu flokksins í kjölfar Panamalekans, eða með 6,9 prósent, síðan þá hefur hann mælst með í kring um tíu prósent.
„Það eru tvímælalaust sóknarfæri núna í aðdraganda kosninga og reynslan er sú að flokkurinn nær sér oft á strik þegar líður að kosningum þegar menn fara að ræða málefnin heldur en aðra hluti,“ segir Sigmundur. „Við erum ekkert sérlega öflug í ímyndarmálum en þegar menn byrja að ræða málefnin hefur það gjarnan styrkt flokkinn,“ segir hann. „Ef ég man rétt var flokkurinn með með um tíu prósent tveimur mánuðum fyrir síðustu kosningar en endaði í 24,4 prósentum,“ segir Sigmundur og er nærri lagi en í janúar 2013, fjórum mánuðum fyrir kosningar, mældist flokkurinn með 14,2 prósent samkvæmt skoðanakönnun Gallup.
Svipaða sögu er að segja, þó ekki jafn afgerandi, fyrir Alþingiskosningar 2009. Um áramótin 2008 - 2009 mældist Framsókn einungis með 7,6 prósent en tryggði sér tæp 15 prósent í kosningunum.
„En allt er þetta háð að menn nái að stilla saman strengi og sannfæra fólk um að við séum flokkurinn til að leiða stóru málin áfram,“ segir Sigmundur.