Handbolti

Dagur um nýju bókina sína: Ekki hrein ævisaga en ekki íþróttabók heldur

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Dagur Sigurðsson.
Dagur Sigurðsson. Vísir/Getty
Þetta er stór dagur fyrir íslenska handboltaþjálfarann Dag Sigurðsson því nýja bókin hans kemur út í Þýskaland í dag.

Árið 2016 hefur verið magnað hjá Degi sem gerði þýska handboltalandsliðið að Evrópumeisturum í janúar og vann síðan Ólympíubrons með liðinu í ágúst.

Bókin hans Dags heitir „Feuer und Eis: Mit Leidenschaft zum Erfolg“ eða „Eldur og ís: Með ástríðu fyrir árangri.“

Dagur viðurkennir í viðtali við handball-world.com að titilinn sé skírskotun í hann sjálfan en Dagur nefnir Bob Hanning, varaforseti þýska handboltasambandsins, þegar hann er spurður út í titil bókarinnar.

„Þetta kemur aðeins frá Íslandi en líka frá mér. Bob hefur stundum sagt það að ég sé stundum eins og ís og svo komi eldgos við og við. Þetta á því við mig því ég er oftast rólegur og yfirvegaður en get líka æst mig ef það þarf að leiðrétta eitthvað,“ segir Dagur en af hverju er hann að gefa út bók núna?

„Þessa ákvörðun tók ég af því að það var mikill áhugi fyrir að heyra mína sögu. Ég var spenntur fyrir að skrifa svona bók. Þetta er ekki hreinræktuð ævisaga en þetta er ekki íþróttabók heldur. Þetta er einhverskonar blanda,“ sagði Dagur.

Dagur segir að í bókinni megi finna góð ráð fyrir handboltaþjálfara og leikmenn líka.  „Þetta er bók um mitt starf í handboltanum, fyrst sem leikmaður og svo sem þjálfari. Ég er mjög tengdur íþróttinni og það er öll mín fjölskylda líka. Í bókinni tala ég líka um ástæðu þess að ég ákvað að verða handboltaþjálfari,“ sagði Dagur.

Dagur hefur einnig náð góðum árangri í heimi viðskiptanna og hann kemur einnig inn á þann hluta lífs síns í bókinni.

„Þjálfun og viðskipti eru lík að mörgu leyti eins og þegar kemur að því að búa til góðan liðsanda og byggja upp lið,“ sagði Dagur.   Það er hægt að sjá og kaupa bókina hér.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×