Kvennalið KR heldur áfram að safna liði fyrir næsta sumar og nú hefur landsliðskonan Hólmfríður Magnúsdóttir samið við sitt uppeldisfélag.
Á heimasíðu KR er sagt að Hólmfríður muni skrifa undir tveggja ára samning við KR./
Hún er þriðji atvinnumaðurinn sem semur við KR í vikunni en í upphafi vikunnar sömdu þær Katrín Ómarsdóttir og Þórunn Helga Jónsdóttir við KR. Það er því ljóst að KR ætlar sér stóra hluti í kvennaboltanum á nýjan leik.
Hólmfríður spilaði 129 leiki fyrir meistaraflokk KR frá 2000-2008 og skoraði í þeim 109 mörk. Hún varð Íslandsmeistari með félaginu 2002 og 2003.
Hólmfríður fór fyrst á lán hjá Fortuna Hjörring í Danmörku, spilaði síðan eitt tímabil með Kristianstad í Svíþjóð og tvö tímabil með Philadelphia Independence í Bandaríkjunum.
Síðustu fimm tímabil spilaði Hólmfríður með Avaldsnes í Noregi sem endaði í öðru sæti í efstu deild á nýloknu tímabili. Hólmfríður hefur átt mjög farsælan feril með landsliðum Íslands.
Hún lék með öllum yngri landsliðunum. Fjóra U-17 landsleiki, átta U-19 leiki, fjórtán U-21 leiki. Hólmfríður hefur verið í A-landsliðinu frá því 2003 og hefur spilað 110 leiki og skorað 37 mörk í þeim landsleikjum.
Hólmfríður semur við KR
Henry Birgir Gunnarsson skrifar
