Viðskipti innlent

Iceland sendir sendinefnd til Íslands til að leysa nafnadeiluna

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Utanríkisráðuneytið hefur hafið lagalegar aðgerðir gegn matvörukeðjunni Iceland.
Utanríkisráðuneytið hefur hafið lagalegar aðgerðir gegn matvörukeðjunni Iceland. Vísir/AFP

Verslunarkeðjan Iceland Foods mun senda sendinefnd hingað til lands til viðræðna við utanríkisráðuneytið um mögulega lausn á nafnadeilunni íslenskra yfirvalda og verslunarkeðjunnar.

Greint var frá því fyrir skömmu að utanríkisráðuneytið hefði hafið lagalegar aðgerðir gegn Iceland Foods. Tilefnið er að um árabil hefur verslunarkeðjan beitt sér gegn því að íslensk fyrirtæki geti auðkennt sig með upprunalandinu við markaðssetningu.

Á vefsíðu The Guardian er rætt við Malcolm Walker, forstjóra Iceland Foods, þar sem hann segist vonast til þess að hægt sé að ná lausn í málinu á friðsælan hátt. Þar segir að viðræðurnar muni hefjast í þessari viku.

„Við höfum ekki áhuga á því að standa í vegi fyrir Íslandi og notkun þess á nafni sínu til þess að kynna eigin vörur, svo lengi sem það skapar ekki rugling við okkar vörur,“ segir Walker.

Hann segir að bæði Ísland og Iceland geti bæði notað nafnið og lifað saman í sátt og samlyndi.

Í samtali við við Vísi í síðustu viku sagði Lilja Dögg Alfreðsdóttur utanríkisráðherra að viðræður stjórnvalda við Iceland um sanngjarna lausn á vandanum hafa engu skilað.

Rúm ellefu ár eru liðin frá því að Steingrímur J. Sigfússon, þáverandi formaður VG, gerði athugasemdir við það á Alþingi að fyrirtækið Iceland gerði nafn Íslands að vörumerki sínu. Fyrr á árinu var fyrst farið að huga að því að höfða mál til ógildingar á skráningu bresku matvöruverslanakeðjunnar Iceland á vörumerkinu Iceland.


Tengdar fréttir






Fleiri fréttir

Sjá meira


×