Innlent

Vilja að Putin og Trump verði boðið til Færeyja

Kristján Már Unnarsson skrifar
Frá Þórshöfn í Færeyjum.
Frá Þórshöfn í Færeyjum. Vísir/GVA.
Þingmenn Miðflokksins í Færeyjum hafa skorað á lögmann Færeyja að bjóða eyjarnar undir leiðtogafund Donalds Trump og Vladimirs Putin. Þeir segja Færeyjar eitt fárra landa sem haldi frið við bæði stórveldin.

Frá því er greint í færeyskum fjölmiðlum að báðir þingmenn Miðflokksins, þeir Jenis av Rana og Bill Justinussen, hafi sent lögmanni Færeyja, Aksel V. Johannesen, formlega áskorun þessa efnis í gær. Þingmennirnir vísa til frétta um að Donald Trump, verðandi Bandaríkjaforseti, hafi boðað að eitt af hans fyrstu verkum verði að hitta Vladimir Putin Rússlandsforseta og að Trump vilji mögulega halda fundinn á Íslandi.

Færeysku þingmennirnir hvetja hins vegar lögmann Færeyja til að bjóða leiðtogunum tveimur í staðinn að funda í Færeyjum.

Vladimír Pútín Rússlandsforseti og Donald Trump, verðandi forseti Bandaríkjanna.Vísir/Getty
 „Færeyjar eru eitt af fáum samfélögum í heiminum sem halda frið við bæði stórveldin og landfræðileg lega Færeyja mælir einnig með þeim sem fundarstað,“ segja þingmennirnir. 

Þeir eru þarna augljóslega að vísa til þess að Færeyingar hafa, ólíkt Íslendingum, komið sér í mjúkinn hjá Rússum með því standa utan við viðskiptastríð vesturveldanna gegn Rússlandi vegna Úkraínudeilunnar. Íslensk stjórnvöld völdu hins vegar að taka þátt í refsiaðgerðum Evrópusambandsins og Bandaríkjanna gegn Rússum.

Flugbrautin í Vogum var lengd úr 1.250 metrum upp í 1.800 metra fyrir fjórum árum.
Færeysku þingmennirnir benda jafnframt á að sem lítið eyland séu Færeyjar kjörinn vettvangur fyrir leiðtogafund sem bjóði upp á öryggi og góða aðstöðu. Náttúruperlur eyjanna myndu veita þjóðarleiðtogum stórbrotna upplifun en jafnframt kæmust Færeyjar á heimskortið, segja þingmennirnir. 

Í athugasemdadálkum færeyskra netmiðla hafa færeyskir lesendur hins vegar bent á að leiðtogafundur í Færeyjum myndi formlega teljast vera haldinn í Danmörku, menn efast um að flugvöllurinn í Vogum sé nægilega stór til að taka við Air Force One, Boeing 747-þotu Bandaríkjaforseta, og auk þess sé veruleg hætta á að leiðtogarnir yrðu veðurtepptir í Færeyjum.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×