Handbolti

Gunnar Steinn: Skíthræddur við svona leiki

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Gunnar Steinn í leiknum í kvöld.
Gunnar Steinn í leiknum í kvöld. Vísir/Getty
„Við megum vera sáttir við þetta, þó svo að maður vilji alltaf meira. Þetta var ekki frábær leikur en við komumst ágætlega frá þessu,“ sagði Gunnar Steinn við Vísi eftir leikinn í kvöld. Ísland vann þá fjórtán marka sigur, 33-19.

Túnis skoraði sjö mörk gegn sex hjá Íslandi á fyrstu 20 mínútum síðari hálfleiks. „Það sýnir að gengur ekkert að slaka á, sama við hverja maður spilar á móti sem þessu. Þeir eru ekki að reyna að vinna leikinn en taka eina sókn og eina vörn í einu.“

„Það er erfitt að spila gegn svona liði, enda með mjög sterka leikmenn og erfitt að vinna þá maður á mann. En við erum auðvitað mun betri í handbolta og við nýttum það ágætlega í kvöld.“

Fyrri hálfleikur var fínn hjá íslenska liðinu en það vantaði aðeins upp á nýtinguna til að vera með meira en átta marka forystu.

„Maður verður ósjálfrátt sáttur við að hafa klárað leikinn í fyrri hálfleik þó svo að maður reyni að peppa sig upp í þann síðari. Þetta voru bara ósjálfráð viðbrögð. Við náðum þessu samt upp í lokin og náðum að klára þetta ágætlega.“

Hann segir það létti að klára svona leiki, sem oft eru kallaðir skyldusigrar. „Ég er alltaf skíthræddur við svona leiki, sama hverjum maður mætir. Stundum er byrjunin erfið en hún var góð hjá okkur í kvöld sem betur fer. Ég er bara sáttur við þetta.“

Ísland leikur gegn Makedóníu á fimmtudag og er það úrslitaleikur fyrir íslenska liðið á þessu mótið og framhaldið. „Nú förum við áfram af fullum krafti og einbeitum okkur að þeim leik. Við lítum á hann sem leik í 32-liða úrslitum fyrir okkur.“

Ekki missa af neinu sem gerist á HM í Frakklandi. Vísir er með öflugt fréttateymi á mótinu sem færir ykkur allar nýjustu fréttirnar af strákunum okkar. Fylgdu okkur á Facebook, Twitter og Snapchat (sport365).


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×