Handbolti

Arnór Þór: Íslendingar þekkja vel svona úrslitaleiki

Henry Birgir Gunnarsson skrifar
Arnór Þór fagnar í kvöld.
Arnór Þór fagnar í kvöld. Vísir/EPA
Arnór Þór Gunnarsson, hornamaður Íslands, segir erfitt að útskýra af hverju mönnum tókst ekki að halda einbeitingu í 60 mínútur gegn Angóla. Ísland vann í kvöld öruggan 14 marka sigur en lenti í basli á 20 mínútna kafla í síðari hálfleik.

„Mér fannst við spila hörkuvel í fyrri hálfleik. Bæði góða vörn og þá var Bjöggi góður í markinu,“ sagði Arnór Þór.

Hann segir að Ísland hafi ekki byrjað vel í síðari hálfleik, þrátt fyrir að þeir hafi rætt í hálfleik um að missa ekki dampinn. „En síðustu tíu mínúturnar gekk þetta betur.“

Arnór Þór segir erfitt að meta af hverju það sé erfitt að halda einbeitingunni allan leikinn.

„Við gerðum það vel í fyrri hálfleik. Nýir leikmenn komu svo inn á og þurfa tíma til að koma sér inn í leikinn. Engu að síður á það ekki að gerast.“

„Við ætluðum að keyra á þá og vinna þá með miklum mun. Fjórtán mörk eru allt í lagi, þó svo að það hefði verið fínt að vinna þá með 16-17 mörkum.“

Ísland vann í kvöld sinn fyrsta sigur á mótinu og Arnór segir að það sé mikilvægt.

„Nú erum við komnir með þrjú stig og eigum úrslitaleik gegn Makedóníu fram undan. Við förum vel yfir það lið á morgun og verðum klárir í þann leik á fimmtudag.“

„Við Íslendingar höfum oft farið í svona leiki og verið ágætir í þeim. Vonandi verður það þannig í þetta skiptið núna.“

Ekki missa af neinu sem gerist á HM í Frakklandi. Vísir er með öflugt fréttateymi á mótinu sem færir ykkur allar nýjustu fréttirnar af strákunum okkar. Fylgdu okkur á Facebook, Twitter og Snapchat (sport365).


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×