Handbolti

Strákarnir hans Dags þurftu engan stórleik til að vinna stórsigur á Sádum

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Dagur Sigurðsson, þjálfari þýska landsliðsins.
Dagur Sigurðsson, þjálfari þýska landsliðsins. Vísir/EPA
Þrír leikir og þrír sigrar í húsi. Þýska landsliðið er með fullt hús í C-riðli heimsmeistaramótsins í handbolta í Frakklandi efir fjórtán marka sigur á Sádum í dag.

Þýskaland vann leikinn 38-24 eftir að hafa verið yfir í hálfleik 21-13. Þýska liðið átti samt engan stórleik þrátt fyrir stórsigur.

Liðið gerði mörg mistök og markverðirnir fundu sig ekki. Það skipti þó litlu enda gríðarlegur getumunur á liðunum tveimur.

Sádarnir komust yfir í 1-0 og 2-1 en svo skildu leikir og Þjóðverjar keyrðu sig í gang. Eftirleikurinn varð síðan auðveldur fyrir þetta gríðarlega sterka þýska lið.

Dagur Sigurðsson gat líka sparað sína bestu menn fyrir framhaldið og markaskorun liðsins dreifðist mjög vel á milli manna. Hinn 22 ára gamli Simon Ernst var sá eini sem náði að spila 40 mínútur í þýska liðinu.

Steffen Fath var markahæstur með sex mörk úr sex skotum. Patrick Groetzki, Kai Häfner og Julius Kühn skoruðu allir fimm mörk. Alls skoruðu sjö leikmenn þýska liðsins þrjú mörk eða meira í þessum leik.

Þýska liðið hefur unnið leikina þrjá á móti Ungverjalandi (+4), Síle (+21) og Sádí-Arabíu (+14). Liðið er því með sex stig og 39 mörk í plús.

Síðustu tveir leikir þýska liðsins eru á móti Hvít-Rússum á morgun og svo úrslitaleikur riðilsins á móti Króatíu á föstudagskvöldið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×