Handbolti

Bjarki: Eigum ekki að sýna Spánverjum neina virðingu

Arnar Björnsson í Metz skrifar
Hornamaðurinn Bjarki Már Elísson er einn margra í landsliðinu sem hefur ekki getað beitt sér að fullu vegna meiðsla.

„Ég var að glíma við smávægileg meiðsli í mjöðminni en prófaði á æfingu í gær og það gekk rosalega vel. Ég er bjartsýnn á að þetta haldi og verði gott,“ sagði Bjarki Már eftir æfingu liðsins í gær. „Ef ég myndi ekki treysta mér þá myndi ég ekki gefa kost á mér.  Ég er bara klár.“  

Bjarki gekk til liðs við Füchse Berlin sumarið 2015 og er næstmarkahæsti maður liðsins en Berlínarliðið er í fjórða sæti í Bundesligunni. Hann er búinn að skora 62 mörk úr vinstra horninu og aðeins Petar Nenadic er búinn að skora fleiri mörk fyrir Füchse.

„Ég er einbeittur og vil standa mig og nýta það tækifæri sem ég fæ og reyna að hjálpa liðinu,“ segir Bjarki sem tekur núna þátt í sínu fyrsta stórmóti. Bjarki viðurkennir alveg að honum hafi fundist að það væri kominn tími á að hann fengi tækifærið.

„Jú, jú en þjálfarinn velur náttúrulega alltaf sitt lið og maður verður alltaf að bera virðingu fyrir því. Ég er búinn að bíða lengi eftir sénsinum og hann er loksins kominn, ef þetta fer sem horfir. Ég hlakka bara til að hjálpa liðinu eins og ég get,“ segir Bjarki.  

Fyrsti andstæðingurinn er afar erfiður enda Spánverjar sem eru með valinn mann í hverju rúmi.

„Við þurfum að undirbúa okkur vel, mæta með kassann úti og gefa allt í þetta. Við höfum engu að tapa. Við eigum ekki að sýna þeim neina virðingu og fara í leikinn af krafti og sjá hvað gerist,“ segir Bjarki sem skoraði sjö mörk úr níu skotum í leikjunum tveimur sem hann spilaði á æfingamótinu í Danmörku.

Ekki missa af neinu sem gerist á HM í Frakklandi. Vísir er með öflugt fréttateymi á mótinu sem færir ykkur allar nýjustu fréttirnar af strákunum okkar. Fylgdu okkur á Facebook, Twitter og Snapchat (sport365).




Fleiri fréttir

Sjá meira


×