Erlent

„Þetta eru algerar nornaveiðar“

Samúel Karl Ólason skrifar
Donald Trump heimsótti flugmóðurskipið USS Gerald Ford í gær.
Donald Trump heimsótti flugmóðurskipið USS Gerald Ford í gær. Vísir/AFP
Donald Trump, forseti Bandaríkjanna, segir Jeff Sessions, dómsmálaráðherra sinna, vera heiðarlegan mann. Hann hafi ekki gert neitt rangt, þó hann hefði getað verið skýrari. Það hafi þó „greinilega ekki verið vísvitandi“.

Jeff Sessions er undir mikilli pressu og er sakaður um að hafa logið undir eiðstaf varðandi samskipti sín við sendiherra Rússlands í Bandaríkjunum. Möguleg tengsl Donald Trump og starfsmanna hans við Rússland hafa valdið honum miklum vandræðum.

Rússar eru sakaðir um að hafa haft áhrif á kosningarnar og þá meðal annars með tölvuárásum og áróðri. Yfirvöld í Bandaríkjunum rannsaka nú hvort að ráðgjafar Trump hafi starfað með Rússum. Sem yfirmaður Alríkislögreglu Bandaríkjanna er Sessions í raun yfir þeirri rannsókn. Hann sagði sig þó frá rannsókninni í gærkvöldi.

Þingmenn demókrata vilja þó að Sessions segi af sér og segja afsökun hans fyrir því að hafa afvegaleitt þingmenn sé ekki trúverðug.

Trump kom Sessions til varnar á Twitter í nótt og sagði að um „algerar nornaveiðar“ væri að ræða. Þessum ásökunum væri eingöngu ætlað að bjarga andliti demókrata fyrir að tapa kosningum sem þeir héldu að þeir myndu vinna.

„Þeir töpuðu kosningunum og nú hafa þeir tapað gripinu á raunveruleikanum,“ sagði Trump. „Raunverulega fréttin eru allir lekarnir á leynilegum og annars konar upplýsingum.“


Tengdar fréttir

Trump efast um tilvist heimildarmanna

Bandaríkjaforseti segir fjölmiðla skálda fréttir sem komi sér illa fyrir hann. Þá gefur hann sér einkunnina C fyrir það hversu vel skilaboð hans komast til skila. Hins vegar fær hann A fyrir vinnusemi og A+ fyrir árangur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×