Erlent

Erfitt fyrir Macron og hans menn að bregðast við lekanum

Atli Ísleifsson skrifar
Frakkar munu kjósa milli Emmanuel Macron og Marine Le Pen, frambjóðanda Þjóðfylkingarinnar, í síðari umferð forsetakosninganna á morgun.
Frakkar munu kjósa milli Emmanuel Macron og Marine Le Pen, frambjóðanda Þjóðfylkingarinnar, í síðari umferð forsetakosninganna á morgun. Vísir/afp
Erfitt verður fyrir Emmanuel Macron og kosningalið hans að bregðast við því sem fram kemur í öllum þeim tölvupóstum og öðrum gögnum úr hans herbúðum sem lekið var á netið í gær þar sem kosningabaráttunni lauk formlega í gær.

Macron fordæmdi í gærkvöldi árásina þar sem níu gígabæt af gögnum honum tengd var lekið á netið. Segir hann að þar sé að finna ósvikin skjöl sem blandað hafi verið við fölsuð skjöl til að villa fyrir kjósendum.

Frakkar munu kjósa milli Macron og Marine Le Pen, frambjóðanda Þjóðfylkingarinnar, í síðari umferð forsetakosninganna á morgun. Skoðanakannanir síðustu daga hafa bent til að Macron hafi öruggt forskot á andstæðing sinn, Le Pen.

Dreift á samfélagsmiðlum

Bannað er að há kosningabaráttu daginn fyrir kosningar í Frakklandi, þar sem dagurinn er ætlaður kjósendum til umhugsunar. Macron og talsmönnum hans er þar með gert erfitt um vik að bregðast við því sem fram kemur án þess að gerast brotleg við kosningalög.

Á sama tíma má telja líklegt að gögnunum sem lekið var verði dreift á samfélagsmiðlum og víðar. Tímasetning lekans virðist því á engan hátt vera einhver tilviljun, en gögnunum var stolið fyrir mörgum vikum.

Árás á lýðræðið

Talsmenn Macron sögðu í gær lekann vera „gríðarmikinn og samhæfðan“ og tilraun til að ráðast gegn lýðræðinu á sama hátt og gert var í forsetakosningunum í Bandaríkjunum.

Talsmaður franskra yfirvalda segir að hvorki innanríkisráðuneytið né önnur ráðuneyti komi til með að tjá sig um málið þar sem bannað varð að fjalla um kosningarnar eftir miðnætti.

Landskjörstjórn hefur skipað franska fjölmiðla til að fara varlega í umfjöllun um lekann og segir að hver sá sem birtir upplýsingar úr gögnunum fyrir kosningarnar verði ákærður. Hefur kjörstjórnin boðað til neyðarfundar í dag til að ræða málið.

Ekki liggur fyrir hverjir standa að baki lekanum, en gögnin voru birt á síðunni Pastebin sem hýsir nafnlausar birtingar.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×