Robert Mueller, fyrrverandi forstjóri bandarísku alríkislögreglunnar FBI, verður sérstakur saksóknari yfir rannsókn á meintum afskiptum Rússa af forsetakosningunum í Bandaríkjunum í fyrra. Frá þessu er greint á vef breska ríkisútvarpsins.
Rod Rosenstein, staðgengill dómsmálaráðherra, skipaði Mueller í stöðuna. Í tilkynningu sem hann sendi frá sér í framhaldinu segir að það sé hagur almennings að fá sjálfstæðan, utanaðkomandi aðila í rannsóknina, í ljósi sérstakra aðstæðna.
Muller starfaði hjá FBI frá árinu 2001 til 2013, meðal annars sem saksóknari.
Jeff Sessions, dómsmálaráðherra Bandaríkjanna, sagði sig frá rannsókninni á dögunum eftir að Washington Post greindi frá því að hann hefði að minnsta kosti tvisvar hitt sendiherra Rússlands á síðasta ári, á sama tíma og kosningabarátta Trump stóð yfir og þegar tilraunir Rússa til að hafa áhrif á kosningarnar eru sagðar hafa staðið sem hæst.

