Erlent

Sex ákærðir vegna Hillsborough-harmleiksins

Kjartan Kjartansson skrifar
David Duckenfield sagði undirmönnum sýnum að opna hlið stúku sem var þegar full af stuðningsmönnum Liverpool. Hátt í hundrað manns létust í troðningnum sem fylgdi.
David Duckenfield sagði undirmönnum sýnum að opna hlið stúku sem var þegar full af stuðningsmönnum Liverpool. Hátt í hundrað manns létust í troðningnum sem fylgdi. Vísir/AFP

Fyrrverandi yfirlögregluþjónn hjá lögreglunni í Suður-Jórvíkurskíri hefur verið ákærður fyrir manndráp og fyrrverandi aðalvarðstjóri fyrir meinsæri vegna Hillsborough-harmleiksins. Þar fórust 96 stuðningsmenn Liverpool vegna mistaka lögreglu.



Upphaflega niðurstaða rannsakenda var að aðdáendurnir á undanúrslitaleik Liverpool og Nottingham Forest í ensku bikarkeppninni á Hillsborough-vellinum í Sheffield 15. apríl árið 1989 hefðu farist af slysförum.



Dánardómstjóri tók málið hins vegar upp aftur árið 2014. Réttarrannsókn hans komst að þeirri niðurstöðu í fyrra að orsök harmleiksins hafi verið gróf vanræksla lögreglunnar og skipuleggjenda leiksins.

Íbúar Liverpool-borgar hafa barist fyrir réttlæti fyrir stuðningsmennina 96 í meira en aldarfjórðung.Vísir/EPA

Reyndu að kenna stuðningsmönnunum um

David Duckenfield var yfirlögregluþjónninn sem var yfirmaður löggæslumála á leikdag. Hann gaf lögreglumönnum meðal annars skipun um að opna hlið inn í þegar fulla stúku þar sem Liverpool-aðdáendur voru. Fólkið lést í gríðarlegum troðningi sem myndaðist í Leppings Lane-stúkunni.



Breska ríkisútvarpið BBC greinir frá því að Duckenfield hafi nú verið ákærður fyrir manndráp á 95 manns vegna grófrar vanrækslu. Ekki var hægt að kæra hann fyrir dráp á 96. manninum sem lést fjórum árum eftir slysið.



Þá hefur Norman Bettison, aðalvarðstjóri, verið ákærður fyrir lygar í kjölfar harmleiksins. Lögreglan í Suður-Jórvíkurskíri reyndi að skella skuldinni á aðdáendur Liverpool.



Fjórir aðrir, tveir lögreglumenn, einn starfsmaður Sheffield Wednesday og lögmaður sem starfaði fyrir lögregluna hafa einnig verið ákærðir.



Ríkissaksóknari Bretlands þarf að fá samþykki dómstóla til að ákæra Duckenfield vegna þess að einkamál var höfðað gegn honum árið 1999.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×