Erlent

Talsmaður lögfræðiteymis Trump segir upp

Hulda Hólmkelsdóttir skrifar
Donald Trump, forseti Bandaríkjanna.
Donald Trump, forseti Bandaríkjanna. Vísir/Getty
Mark Corallo, talsmaður lögfræðiteymis Donalds Trump Bandaríkjaforseta hefur sagt upp störfum. Samkvæmt frétt á vef BBC er ástæðan sú að hann sé ósáttur með þá tefnu teymisins að koma óorði á teymið sem fer með rannsókn á meintum afskiptum Rússa af forsetakosningunum í nóvember í fyrra.

Corallo er náinn vinur Roberts Mueller, sérstaks saksóknara sem fer með rannsóknina, sem fjölmiðlar vestanhafs telja að Trump vilji víkja úr embætti.

Mueller hefur ráðið til starfa stórskotalið lögfræðinga en hann er einnig að rannsaka hvort að kosningateymi Trump hafi verið í slagtogi við rússnesk yfirvöld.

The New York Times greindi frá því að lögfræðiteymi Trump vilji draga úr trúverðugleika rannsóknar Mueller og sé með bakgrunn starfsfólks hans til rannsóknar og leiti að öllum mögulegum hagsmunaárekstrum.

The Washington Post greindi einnig frá því að Trump hafi spurt lögmenn sína hversu mikið vald hann hafi til að veita fólki sakaruppgjöf. Einn heimildarmaður segir forsetann hafa athugað hvort hann geti veitt fjölskyldu sinni, aðstöðarmönnum og jafnvel sjálfum sér sakaruppgjöf.

Annar segir að þetta spjall hans við lögmenn sína hafi verið almenns eðlis og sá þriðji segir að forsetinn hafi einfaldlega viljað vita meira um valdasvið sitt.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×