„Þeir héldu að við hefðum átt í samráði en við gátum ekki einu sinni átt samráð við eigin skrifstofur,“ sagði Jared Kushner, eiginmaður Ivönku Trump og einn helsti trúnaðarmaður forsetans, við lærlingana í gær.
AP-fréttastofan segir að vefsíðan ForeignPolicy.com hafi fyrst greint frá ummælum Kushner en þau voru upphaflega ekki ætluð til opinberrar birtingar. AP segist hafa fengið ummælin staðfest hjá aðstoðarmanni fulltrúadeildarþingmanns demókrata.
Átti ekki von á að vera á leið í stjórnmál
Í samtalinu við lærlingana er Kushner ennfremur sagður hafa játað að hann viti ekki hvert rannsókn Roberts Mueller, sérstaks rannsakanda dómsmálaráðuneytisins, á meintu samráði framboðs Trump við Rússa stefni.
Kushner sagðist ekki hafa átt von á að taka við embætti í ríkisstjórninni og því hafi hann ekki gætt nægilega að fundum sínum með erlendum embættismönnum þegar hann skýrði frá þeim á umsókn um öryggisheimild sem háttsettir bandarískir embættismenn þurfa til að fá aðgang að leynilegum upplýsingum.
Greint hefur verið frá því að Kushner hafi ítrekað uppfært skráningu sína vegna öryggisheimildarinnar. Hann hafi bætt við fjölda funda með erlendum embættismönnum sem hann greindi upphaflega ekki frá. Kushner hefur sagt það hafa verið mistök og drög að umsókn hafi upphaflega verið send óvart.

Áður en Kushner kom fyrir tvær nefndir Bandaríkjaþings sem rannsaka afskipti Rússa af forsetakosningunum og hugsanlegt samráð framboðs Trump við þá, greindi tengdasonur forsetans frá fjórum fundum með rússneskum embættismönnum en gerði lítið úr vægi þeirra.
Kvaðst hann saklaus af öllu samráði og sömuleiðis aðrir starfsmenn framboðsins.
Kushner sat meðal annars umdeildan fund með rússneskum lögmanni sem hafði lofað Donald Trump yngri, syni forsetans og mági Kushner, skaðlegum upplýsingum um Hillary Clinton í júní í fyrra. Í gær var greint frá því að Trump forseti hafi sjálfur gefið skipanir um hvernig misvísandi yfirlýsing sem Trump yngri gaf út um eðli fundarins skyldi orðuð.
Sarah Huckabee Sanders, blaðafulltrúi Hvíta hússins, sagði nú í kvöld að Trump hafi „látið skoðun sína í ljós“ á yfirlýsingu sonar síns. Í frétt Washington Post í gærkvöldi voru ráðgjafar forsetans sagðir hafa lagt drög að yfirlýsingu þar sem greint hefði verið nákvæmlega frá fundinum til að forðast að hægt yrði að hrekja lýsingu Trump yngri á honum síðar.
Þess í stað hafi Trump gripið í taumana og lesið sjálfur fyrir yfirlýsingu þar sem gert var lítið úr efni fundarins. Í kjölfarið birtu fjölmiðlar hins vegar sífellt nýjar upplýsingar um fundinn og þurfti Trump yngri ítrekað að breyta frásögn sinni af honum.
Í myndbandi CNN hér fyrir neðan má sjá Söruh Huckabee Sanders, blaðafulltrúa Hvíta hússins, svara spurningu um hvort að Trump forseti hafi samið yfirlýsingu sonar síns á blaðamannafundi í dag.
WH on POTUS involvement in Russia statement: The President weighed in "as any father would" https://t.co/2vljkpPz5k https://t.co/Nzm5QzyNJB
— CNN (@CNN) August 1, 2017