Erlent

Kirkjan fordæmir herferð Duterte

Þórgnýr Einar Albertsson skrifar
Herferð Duterte hefur kostað að minnsta kosti 3.500 lífið.
Herferð Duterte hefur kostað að minnsta kosti 3.500 lífið. vísir/EPA
Kaþólska kirkjan á Filippseyjum fordæmdi í gær herferð forsetans Rodrigo Duterte gegn eiturlyfjafíklum, -sölum, -framleiðendum og -smyglurum. Herferðin hefur kostað að minnsta kosti 3.500 lífið og drepur lögregla grunaða án dóms og laga.

„Við biðlum til samvisku þeirra sem drepa hina bjargarlausu, sérstaklega þeirra sem hylja andlit sitt, um að hætta að taka mannslíf,“ sagði kardinálinn Luis Tagle í gær. Bætti hann því við að eiturlyfjavandann ætti ekki að smætta niður í pólitískt deilumál heldur kæmi hann samfélaginu öllu við.

Kirkjan gagnrýndi herferðina fyrst undir lok síðasta árs. Tók Duterte illa í þá gagnrýni og skaut föstum skotum á æðstu menn kirkjunnar. Duterte hafði þó ekki svarað gagnrýni kardinálans þegar Fréttablaðið fór í prentun í gær.

En þótt yfirvöld segi 3.500 hafa fallið í herferðinni halda óháð samtök víðs vegar um Filippseyjar því fram að talan sé mun hærri, sem og því að margir hinna drepnu hafi í raun verið saklausir.

Reuters greindi frá því í gær að 90 hið minnsta hefðu verið drepnir í nýliðinni viku. Þar af 32 í sama áhlaupi í Bulacan-héraði, norður af höfuðborginni Maníla. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×