Innlent

Birgitta efins um kosningar

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Birgitta Jónsdóttir mætti á Bessastaði til fundar við forseta Íslands á laugardaginn eins og formenn allra flokka.
Birgitta Jónsdóttir mætti á Bessastaði til fundar við forseta Íslands á laugardaginn eins og formenn allra flokka. vísir/daníel ágústsson
Birgitta Jónsdóttir, þingflokksformaður Pírata, er þess fullviss að Sjálfstæðisflokkurinn muni bæta við sig fylgi í komandi kosningum. Hún er efins um að fara í kosningar 28. október eins og allt stefnir í.

„Af hverju erum við að fara í kosningar eftir 45 daga? Hefur verið reynt til þrautar að mynda t.d. minnihlutastjórn? Munum við sjá miklar breytingar eftir kosningar? Ég er nokkuð viss að þeir sem halda að Sjálfstæðisflokkurinn veikist mikið til langtíma verði fyrir allmiklum vonbrigðum,“ segir Birgitta á Pírataspjallinu.

Bjarni Benediktsson forsætisráðherra heldur á Bessastaði klukkan 11 í dag. Fastlega má gera ráð fyrir því að Bjarni mæti með tillögu til forsetans um að þing verði rofið og boðað til kosninga. Bein útsending verður á Vísi frá Bessastöðum.

„Mér finnst það reyndar absúrd hve stjórnmál hérlendis snúast mikið um að koma Sjálfstæðisflokknum frá völdum með sömu aðferðinni áratugum saman. Eina leiðin til þess er að breyta stjórnskipan og regluverki í okkar æðstu lögum. Það er ekki að fara að gerast núna, svo mikið er víst.“

Klukkan 12:30 mun síðan Unnur Brá Konráðsdóttir, forseti Alþingi, funda með formönnum þeirra stjórnmálaflokka sem sæti eiga á þingi til að ræða næstu skref varðandi þingstörfin.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×