Innlent

Flókin staða hjá minni flokkum

Jóhann Óli Eiðsson skrifar
Gunnlaugur Ingvarsson, formaður Frelsisflokksins.
Gunnlaugur Ingvarsson, formaður Frelsisflokksins. vísir/vilhelm
Stuttur fyrirvari fyrir kosningar þýðir að óvíst er hvort smærri framboð muni ná að bjóða fram eður ei. Fyrirhugaður kjördagur er 28. október næstkomandi.

„Þetta kom alveg flatt upp á okkur líkt og flesta landsmenn,“ segir Gunnlaugur Ingvarsson, formaður Frelsisflokksins. Flokkurinn á rætur að rekja til Íslensku þjóðfylkingarinnar og var stofnaður fyrir rétt rúmum mánuði. Fundað verður í vikunni um framhaldið.

„Ég á ekki von á því að við treystum okkur í framboð. Fyrirvarinn er einfaldlega of lítill. Það er ekki nema fyrir flokksmaskínur að taka þátt núna,“ segir Gunnlaugur. „Okkar undirbúningur hafði miðað að sveitarstjórnarkosningum. Okkur líður smá eins og körfuboltaliði sem mætir á staðinn og fær að vita að það eigi að keppa í fótbolta.“

Ragnar Sverrisson hjá Húmanistaflokknum, en flokkurinn bauð fram í einu kjördæmi í fyrra, segir að flokksmenn muni funda í vikunni. Hann telji þó minni líkur en meiri á að farið verði fram.

„Við tökum ákvörðun á þriðjudagskvöldið og við stefnum á öll kjördæmi,“ segir Þorvaldur Þorvaldsson, formaður Alþýðufylkingarinnar. „En þó kóngur vilji sigla skal byr ráða. Þetta er þó mjög knappur tími.“

„Við funduðum í dag og það verður farið fram,“ segir Pálmey Helga Gísladóttir, formaður Dögunar. Hún segir að ákall sé frá þjóðfélaginu að stjórnmálaflokkar starfi saman og því komi vel til greina að íhuga slíkt. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×