Innlent

Engin af skattahækkanatillögum Viðreisnar hefði hlotið afgreiðslu

Ingvar Þór Björnsson skrifar
Páll Magnússon, þingmaður Sjálfstæðisflokksins.
Páll Magnússon, þingmaður Sjálfstæðisflokksins. Vísir/Anton
Páll Magnússon, þingmaður Sjálfstæðisflokksins og formaður atvinnuveganefndar, sagði í ræðu sinni á kosningafundi flokksins í gær að engin af skattahækkanatillögum frá fjármálaráðherra Viðreisnar hefði hlotið afgreiðslu í þeim þingnefndum sem undir forystu Sjálfstæðismanna höfðu með þær að gera. „Fjármálaráðherra var líka fullkunnugt um að við höfðum marga fyrirvara gagnvart þeim öllum – og að engin þeirra færi óbreytt í gegnum þingið með stuðningi Sjálfstæðismanna,“ sagði Páll í ræðunni.

Þá benti hann á að á tíu ára tímabili hafa hrein rekstrarútgjöld ríkisins hækkað að raungildi um 142 milljarða króna á ári; eða um 75%.

Í samtali við Vísi segir Páll að skattahækkanatillögur á bensín, dísilolíu og virðisaukaskatt hefðu ekki farið óbreyttar í gegnum þingið með samþykki Sjálfstæðismanna. Spurður hvaða breytingar hann hefði viljað sjá segir hann að það hafi svo sem ekki reynt á það. „Aðalmarkmiðið var að draga úr notkun á dísilbílum en við lítum svo á að þetta hafi verið frekar lélegt dulargervi fyrir skattahækkun. Það var ekki verið að jafna neitt með þessum sköttum. Gjaldið á bensínið og gjaldið á olíuna var hækkað og var úr þessu mikil skattahækkun.“

Spurður hvort ekki eigi að taka mið af loftslagsáætlun ríkisstjórnarinnar með grænum skatti á ökutæki segir Páll að alltaf hafi legið fyrir að það þyrfti að breyta skattlagningunni á ökutæki. „Það verður að tryggja tekjur ríkisins vegna þess að tekjurnar af eldsneytinu voru alltaf lækkaðar. Það þyrfti að breyta hlutföllunum og hvetja þannig til notkunar á hreinni orkugjafa. Það sagði hins vegar enginn að þetta ætti að vera gert með skattahækkun.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×