New York Times og Washington Post greindu frá því í gærkvöldi að Mueller hefði óskað eftir gögnum frá forsetatíð Donalds Trump. Þau varða að mikla leyti einstaka atburði sem vakið hafa mikla athygli eftir að Trump tók við embætti, að sögn Washington Post.
Fyrir utan öll möguleg gögn sem varða þá ákvörðun forsetans að reka James Comey, forstjóra alríkislögreglunnar FBI, og fund Trump yngri með rússneskum lögmanni í fyrra, er sérstaki rannsakandinn sagður á höttunum eftir skjölum sem tengjast brotthvarfi Michael Flynn, þjóðaröryggisráðgjafa Trump, úr Hvíta húsinu.
Gögnin varða þrettán flokka sem rannsakendur á vegum Mueller hafa skilgreint og telja sérstaklega mikilvæga fyrir rannsóknina á því hvort að framboð Trump hafi átt samráð við rússnesk stjórnvöld.
New York Times segir að Mueller vilji gögn sem varða fund sem Trump átti með rússneskum erindrekum í Hvíta húsinu eftir að hann rak Comey. Þar lýsti hann Comey sem „klikkhaus“ og að brottrekstur hans hafi létt „miklum þrýstingi“ af forsetanum.

Rannsakendurnir hafa einnig óskað eftir gögnum sem tengjast Paul Manafort, fyrrverandi kosningastjóra Trump sem er til rannsóknar. Fyrr í vikunni var greint frá því að alríkislögreglan hefði hlerað hann fyrir og eftir forsetakosningarnar í nóvember. Húsleit var gerð á heimili hans fyrr í sumar.
New York Times hefur eftir Ty Cobb, lögmanni Trump, að hann muni afhenda hluta skjalanna í þessari viku. Hvorki talsmaður Mueller né Hvíta húsið vildi tjá sig um fréttirnar.
Mueller tók við rannsókn á meintum tengslum Trump og félaga við Rússa eftir að forsetinn rak Comey sem forstjóra FBI í maí.
Trump hefur ítrekað lýst rannsókninni sem „nornaveiðum“ og „gervifréttum“. Stjórnvöld í Kreml hafa sömuleiðis gert lítið úr meintu samráði þeirra við framboð Trump, að sögn breska ríkisútvarpsins BBC.