Fundi formanna þeirra flokka sem sæti eiga á Alþingi með Unni Brá Konráðsdóttur, forseta þingsins, lauk núna á þriðja tímanum.
Reynt var að ná niðurstöðu um það hvernig framhald þingstarfa verður og hvenær þingi verður slitið fyrir kosningar en ekki náðist lending í það og eru þingstörfin því enn í óvissu. Ekki hefur verið boðað til þingfundar og ekki liggur fyrir hvenær þingi verður slitið en boðað hefur verið til kosninga þann 28. október næstkomandi.
„Þetta var bara ágætur fundur þar sem menn voru að leita leiða til að finna sameiginlega niðurstöðu. Niðurstaðan var svo samt sú að hittast aftur á föstudaginn,“ segir Sigurður Ingi Jóhannsson, formaður Framsóknarflokksins, sem kveðst hafa nokkrar áhyggjur af stöðu mála.
Óvenjuleg staða þar sem engin mál liggja fyrir þinginu
„Öll vikan hefur farið í þetta. Það er ljóst að það er erfitt að finna sameiginlega niðurstöðu eftir svona óvænt upprót á stjórnarsamstarfi. Svo liggja engin mál fyrir þinginu og þetta er þar af leiðandi óvenjuleg staða. Það var ekkert byrjað að vinna í neinum málum sem er auðvitað öðruvísi en þegar 20 mál eru komin á endametrana og menn geta sammælst um að klára kannski fimm mál.“
Sigurður segir engin mál hafa verið komin í slíkan farveg en eins og greint hefur verið frá eru nokkur mál sem þingmenn vilja reyna að koma í einhvern öruggan farveg fyrir kosningar.
„En ef það gengur ekki á viku hvað ætla menn þá að gera í næstu vikur og svo eru bara fjórar vikur í kosningar.“
Hann segir smátt og smátt styttast í það að það komi í ljós hvort þingmenn ætli sér að komast að sameiginlegri niðurstöðu eða slíta þinginu.
„Það er óheppilegt að öll þessi atburðarás sem hefur orðið frá því að ríkisstjórninni er slitið óvænt á fimmtudagskvöldi, í miðri fjárlagaumræðu, út af allt öðru máli. Síðan er boðað til kosninga með skömmum fyrirvara en það að við erum enn ekki búin að slíta þinginu eða finna einhverja leið til þess er auðvitað ekki gott. Vonandi verða menn tilbúnari eftir næstu kosningar til að axla meiri ábyrgð á því að taka hérn stjórn meira í sínar hendur og bera ábyrgð á henni. Ég held að við séum kosin til þess.“
