Erlent

Kristilegir demókratar ná samkomulagi um málefni flóttafólks

Atli Ísleifsson skrifar
Horst Seehofer og Angela Merkel nú í hádeginu.
Horst Seehofer og Angela Merkel nú í hádeginu. Vísir/AFP
Kristilegir demókratar (CDU), flokkur Angelu Merkel Þýskalandskanslara, hafa náð samkomulagi við bæverskan systurflokk sinn, CSU, um málefni flóttamanna.

Merkel og Horst Seehofer, leiðtogi CSU, héldu í morgun sameiginlegan fréttamannafund þar sem þau kynntu samkomulagið sem náðist eftir um tíu tíma samningaviðræður. Þýskir fjölmiðlar segja samkomulagið fela í sér að Þýskaland muni stefna að því að taka ekki á móti fleiri en 200 þúsund flóttamönnum á ári.

Tvær vikur eru nú liðnar frá þýsku þingkosningunum en stefnt að myndun stjórnar CDU/CSU, FDP og Græningja.

Seehofer hefur á síðustu mánuðum og árum gagnrýnt stefnu stjórnar Merkel í flóttamannamálum. Hann segir ákvörðun Merkel að opna landamærin fyrir flóttafólki haustið 2015 sem eina helstu ástæðu þess að hægri popúlistaflokkurinn Alternativ für Deutschland (AFD) náði nú í fyrsta skipti mönnum inn á þýska þingið.

Kristilegir demókratar hlutu 33 prósent fylgi í þýsku þingkosningunum, um níu prósent minna en í kosningunum 2013. Jafnaðarmannaflokkur Martin Schulz, sem starfað hefur með flokki Merkel í ríkisstjórn síðustu árin, hlaut 20,5 prósent og hefur fylgið ekki verið minna á eftirstríðsárunum. AFD hlaut 12,6 prósent atkvæða og FDP, frjálslyndir, 10,7 prósent.


Tengdar fréttir

Erfitt verkefni fram undan eftir kosningar í Þýskalandi

Óljóst er hvaða flokkar munu mynda ríkisstjórn í Þýskalandi eftir nýafstaðnar kosningar. BBC greinir frá því að óvissan hafi leitt til þess að gengi evrunnar mældist lægra í gær en það hefur gert undanfarinn mánuð.

Lofar að vinna öfgamenn aftur á sitt band

Stjórnarmyndunarviðræður taka nú við í Þýskalandi og er í raun aðeins ein meirihlutastjórn í kortunum þar sem Jafnaðarmannaflokkurinn (SDP) hefur lýst því yfir að hann verði í stjórnarandstöðu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×