„Ef við klárum okkar leiki erum við komnir á HM. Svo einfalt er það. Þetta er samt gríðarlega mikilvægur leikur og verður mjög erfiður. Við vitum alveg hvað við þurfum að gera og hversu miklu við þurfum að fórna fyrir þetta.“
Þetta segir Ari Freyr Skúlason, bakvörður íslenska landsliðsins í fótbolta, fyrir leikinn mikilvæga í undankeppni HM 2018 gegn Tyrklandi í Eskisehir á föstudagskvöldið.
Strákarnir okkar mættu Tyrkjum fyrir tveimur árum og töpuðu þá 1-0 í þýðingarlausum leik fyrir íslenska liðið þar sem það var komið á EM í Frakklandi. Þeir búa samt að þeirri reynslu.
„Hér eru brjálaðir stuðningsmenn og það verða þvílík læti. Ég man bara eftir atviki síðast þegar að Raggi stóð tvo metra frá mér og ég var að öskra á hann en hann leit ekki á mig. Það verður ekki auðvelt að tjá sig inni á vellinum en ef við höldum varnarlínunni og höldum núllinu þá munu stuðningsmennirnir snúa sér að Tyrkjunum,“ segir Ari Freyr.
Bakvörðurinn var með læsta stöðu í vinstri bakverðinum hjá íslenska liðinu þar til kom að leiknum gegn Króatíu í júní á þessu ári. Þá allt í einu fékk Hörður Björgvin Magnússon tækifærið og hann hefur byrjað síðustu mótsleiki eftir að skora sigurmarkið í þeim leik og standa sig vel. Hefur það áhrif á Ara?
„Maður mætir alltaf til móts mvið landsliðið haldandi að maður sé að fara að spila. Ég er að spila með mínu félagsliði og hef ekki misst af mörgum leikjum þar. Heimir veit alveg að ég er í leikformi. Hann veit að ég er klár og veit að ég stend við bakið á þeim sem að spila. Það ætti ekki að vera neitt vesen. Ég mun styðja hvern þann sem að spilar mína stöðu. Við erum saman í þessu. Við ætlum á HM og sama hvort ég er að byrja eða á bekknum þá erum við saman í þessu,“ segir Ari Freyr en var áfall að missa stöðuna sína eftir að vera fastamaður svona lengi?
„Auðvitað fer maður að pæla í hvað maður hefur gert þegar að maður dettur úr liðinu. Við vorum að spila á móti Króatíu þegar að ég dett út og kannski fannst Heimi að Hörður Björgvin myndi virka betur þar. Svo skorar hann sigurmarkið þannig það gat ekki verið betra hjá honum. Ég reyni samt bara að halda mínu striki. Ég var búinn að spila 40 mótsleiki í röð fram að þessu þannig að maður heldur bara áfram og svo fær maður tækifæri aftur,“ segir Ari Freyr Súlason.
Allt viðtalið má sjá hér að ofan.
