Fótbolti

Flottasti leikvangurinn í byggingu í dag mun hýsa NFL, ÓL 2024 og HM 2026 | Myndband

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Mynd/Youtube-síða LA Rams
Íþróttaleikvangar heimsins verða alltaf flottari og flottari og alltaf er verið að bæta við flóruna.

Það kostar sitt að byggja alvöru íþróttaleikvang í dag enda eru kröfurnar orðnar gríðarlega ætli menn að koma sér í hóp þeirra flottustu.

Í dag eru mörg stærstu íþróttafélög heimsins að hugsa um að stækka við sig til að auka upplifun áhorfenda sem og innkomu af leikjum. Stórir íþróttaviðburðir eins og Ólympíuleikar, heimsmeistarakeppnir eða Evrópukeppnir kalla líka alltaf á nýja leikvanga.

B1M-myndbandasíðan á Youtube hefur nú tekið saman skemmtilegt myndband um fimm flottustu leikvangana sem eru í byggingu í dag. Leikvangarnir sem komu til greina verða að vera tilbúnir fyrir árið 2020.

Leikvangarnir fimm sem komust í þennan úrvalshóp eru í byggingu í Ástralíu, Japan, Ungverjalandi, Englandi og Bandaríkjunum.  

Þar má sjá leikvang sem getur hýst fimm mismunandi íþróttir og annan leikvang sem hefur bæði venjulegt gras og gervigras sem og lengsta bar í Bretlandi. Þá má einnig nefna leikvang sem er með hlaupabraut upp við þakið og annan þar sem upplifun gesta á leiðinni til sæta verður eins og að ganga í gegnum skóglendi.

Sá allra flottasti af þessum fimm verður líka mikið í sviðsljósinu á næstu árum því þar munu tvö NFL-lið spila heimaleiki sína auk þess að þetta verður aðalleikvangurinn á Ólympíuleikunum í Los Angeles 2024 og mun að öllum líkindum hýsa úrslitaleik heimsmeistarakeppninnar í fótbolta árið 2026.

Það má sjá þetta fróðlega myndband hér fyrir neðan.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×