Handbolti

Dagur Sig ætlar að byrja árið á því að spila við íslenska landsliðið

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Dagur Sigurðsson.
Dagur Sigurðsson. Vísir/Getty
Íslenska handboltalandsliðið mun spila vináttulandsleik við Japan á lokaspretti undirbúnings síns fyrir Evrópumótið í Króatíu í janúar.

Dagur Sigurðsson, landsliðsþjálfari Japans, sagði frá þessu í Seinni bylgjunni á Stöð 2 Sport í gærkvöldi að hann mun mæta íslenska landsliðinu 3. janúar.

Japanska landsliðið gæti spilað annan leik á Íslandi strax daginn eftir en sá yrði á móti liði skipað leikmönnum úr Afrekshópi HSÍ.

„Það er bara næsta verkefni og ég er að fara núna út til að undirbúa mína menn. Það stefnir allt í það að við komum til með að spila við Ísland í byrjun janúar. Þetta yrði þá síðasti leikurinn hjá Íslandi fyrir Evrópumótið,“ sagði Dagur Sigurðsson í Seinni bylgjunni í gær.

Íslenska landsliðið spilar fyrsta leikinn sinn á Evrópumótið 12. janúar en liðið mætir þá öðrum íslenskum þjálfara. Fyrsti leikur liðsins á EM er nefnilega á móti sænska landsliðinu.

Dagur Sigurðsson tók við japanska landsliðinu fyrr á þessu ári en honum er ætlað að undirbúa liðið fyrir Ólympíuleikana í Tókýó árið 2020.

Dagur Sigurðsson hefur mætt íslenska landsliðinu sem bæði þjálfari austurríska landsliðsins og sem þjálfari þýska landsliðsins. Hann verður að sjálfsögðu fyrsti íslenski þjálfarinn sem stýrir þremur mismundandi landsliðum á móti Íslandi.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×