Handbolti

FH fær ekki krónu frá Kiel fyrir einn efnilegasta handboltamann Evrópu

Hörður Magnússon skrifar
Gísli Þorgeir Kristjánsson.
Gísli Þorgeir Kristjánsson. Vísir/Ernir
FH fær ekki krónu frá þýska stórliðinu Kiel fyrir landsliðsmanninn efnilega í handknattleik, Gísla Þorgeir Kristjánsson, samkvæmt heimildum íþróttadeildar. Hafnarfjarðarliðið getur aðeins sótt uppeldisbætur fyrir leikmanninn til evrópska handknattleikssambandsins. En það eru smáaurar.  

FH getur sótt því aðeins sótt uppeldisbætur til EHF fyrir hvert ár sem Gísli er samningsbundinn leikmaður meistaraflokks. 2500 evrur fyrir hvert ár, 310 þúsund krónur.

Samkvæmt heimildum íþróttadeildar vildi Gísli aðeins semja til eins árs síðastliðið sumar. Kiel er eitt stærsta félag Evrópu og greiddi til dæmis eina milljón evra fyrir Domagoj Duvnjak.

Alfreð Gíslason hefur áður sótt leikmann til FH. Aron Pálmarsson fór til Kiel árið 2009 og samkvæmt öruggum heimildum íþróttadeildar greiddi Kiel, FH, 60 þúsund evrur á þeim tíma fyrir Aron sem eru tæpar átta milljónir á núverandi gengi. Auk þess greiddi Kiel FH ýmislegt annað í formi utanlandsferða sem nýttist félaginu á sínum tíma.

Allt annað er upp á teningnum að þessu sinni. Samningur Gísla við FH rennur út í vor og þá er hann laus allra mála. Kiel fær því einn efnilegasta handboltamann Evrópu frítt og hafnarfjarðarliðið fær ekki krónu, samkvæmt öruggum heimildum íþróttadeildar.

Ásgeir Jónsson formaður handknattleiksdeildar FH vildi ekkert tjá sig um málefni Gísla og varðist allra frétta þegar íþróttadeild leitaði til hans í dag.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×